Kaupum Íslenskt.

Alveg síðan átakið var gert hérna um árið uppúr 1970, til styrktar Íslenskum iðnaði, hef ég keypt Íslenskt þegar ég hef getað.

Jafnvel þegar það Íslenska hefur verið dýrara (langoftast þannig) hef ég látið mig hafa það, hugsað bara að við verðum að efla atvinnu í landinu því það kemur okkur öllum til góða.

Þegar um matvöru hefur verið að ræða hef ég nánast undantekningalaust valið Íslenskt því í ofanálag kolféll ég  fyrir þeim áróðri frá Bændasamtökunum um að útlendur matur gæti verið varasamur.Nr_01b_Logo_Titt_val_RGB_JPEG

Í seinni tíð hefur enn ein ástæða bæst við, en hún varðar umhverfissjónarmið. Það er nefnilega mun umhverfisvænna að kaupa vörur sem eru framleiddar í næsta nágrenni heldur en þær sem fluttar eru langan veg.

Núna nýlega áttaði ég mig á því að ég hef látið blekkja mig illilega. Þegar betur er að gáð eru margar þær vörur sem ég hef talið vera Íslenskar, framleiddar í útlöndum.

Tökum sem dæmi Ora túnfisk. Hann er dýrari en útlendur en samt er hann framleiddur í Asíu fyrir Ora.  Ég vissi auðvitað alltaf að túnfiskur væri ekki veiddur hér við land en ég hélt þó að hann væri niðursoðinn hér, en svo er ekki. Ég þori ekki að fullyrða hversu margar vörutegundir eru framleiddar erlendis undir Íslenskum merkjum en þær eru allmargar, meira að segja Ora grænar baunir og gulrætur eru unnar erlendis.

Ömmu pizzur eru til dæmis framleiddar á Ítalíu, það er tekið fram á kassanum en það sést ekkert sérlega vel því það er prentað pínulitlum svörtum stöfum á dökkgrænan flöt. 

Svo eru það aðrar vörur eins og fatnaður.  Hann er oftar en ekki framleiddur í Asíu eða Eystrasaltslöndunum en er samt kallaður Íslenskur bara af því að hönnunin er Íslensk. Fatnaður frá 66° norður hefur verið talinn Íslensk framleiðsla en hún er öll unnin í Lettlandi eða bara þar sem ódýrt vinnuafl er að finna. Samt er þessi vara mun dýrari en önnur vara unnin á sama stað.

Við neytendur virðumst ekki fá að njóta hagkvæmninnar sem fæst með því að varan er unnin ódýrt, ónei við skulum sko fá að borga af því að merkið er Íslenskt.

Ég veit ekki hvað þetta hefur staðið lengi því undanfarin ár hefur sjónin daprast vegna aldurs Blush og þessir stafir eru svo hræðilega litlir. 

Ég er hrædd um að ég verði að hugsa mínar kaupvenjur uppá nýtt.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Runólfur Jónatan Hauksson

Verð nú að segja að ég er eiginlega löngu hættur að versla það sem Íslenskt er. Ég hræðist lítt innflutt matvæli. Skrapp í búð í dag og verslaði svona kannski 1/2 svínabóg með beini,,,,tæpar 900kr kílóið,,, verslaði líka tvær Írskar svínalundir og kílóverðið var reyndar rúmar 1900 krónur, en ungvin bein né fita. 66° merkjavörurnar er nú bara ekki hægt að kaupa. Ein lázý flíspeisa á rúmar 18000 krónur.........

Runólfur Jónatan Hauksson, 10.5.2008 kl. 18:13

2 Smámynd: Halla Rut

Ég hef verið blekkt. Ég hef alltaf reynt að kaupa Ömmu pizzur því ég taldi þær Íslenskar því ég, eins og þú, kaupi ávallt Íslenskt sé það í boði.

Framleiðendur þurfa að koma sér upp stóru og góðu merki svo neytendur viti þegar um Íslenska vöru er að ræða. Reglan gæti verið að t.d. 70% þyrfti að vera unnin hér á landi.

Varðandi 66 gráður Norður þá er hægt að segja þeim til varnar að þeir geta ekki látið framleiða í eins miklu magni eins og t.d. þekkt vörumerki erlendis. Í þessum láglaunalöndum skiptir magnið öllu. Ég þekki þetta vel þar sem ég hef verið að flytja inn frá Kína og hef ævinlega þurft að greiða hærra verð fyrir vöruna því ég get ekki pantað sama magn og aðrir.  

Ég held að unga fólkinu sé nokkuð sama hvaðan vörurnar koma en það liggur í þeim sem munum eftir áróðrinum frá 1970 að kaupa eigin framleiðslu. Það þarf að koma þessu á aftur. Þetta gæti einnig hvatt menn til að framleiða meira en það er til skammar hvað við í raun framleiðum lítið sjálf. Það er hreinlega bara allt innflutt.  

Bestu kveðjur. 

Halla Rut , 12.5.2008 kl. 12:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband