Útvarp saga.

Þættir Arnþrúðar Karlsdóttur eru oft ákaflega athyglisverðir svo ekki sé meira sagt. Í gær 5.maí, byrjaði hún þátt sinn á því að býsnast út og suður yfir fréttaflutningi helgarinnar.  Þar hafði verið sagt frá ásökunum á hendur prests á Selfossi.

Ég get alveg tekið undir með henni,  þar var fjallað óvarlega um málið, heldur glannaleg framsetning sérstaklega þegar haft er í huga að það er á byrjunarstigi.  En hún gat ekki látið þar við sitja. Í rauninni bætti hún um betur og var engu skárri en þeir sem hún var að gagnrýna. Hún tók bara annan pól í hæðina.

Eftir að hafa talað fram og aftur um hvað svona mál væru nú viðkvæm og það þyrfti að fara svo varlega í svona fréttaflutningi,  fór hún að tala um að sennilega væru þessar unglingstúlkur bara að bulla. 

Þar á eftir hnýtti hún í Barnahús, sagði að þar væri fólk sem kynni ekkert til verka, það væri nú nær að láta lögregluna um að yfirheyra stúlkurnar. Svo kom undarleg athugasemd um að ekki væru veggjakrotarar  færðir til yfirheyrslu í Barnahúsi, heldur væru þeir yfirheyrðir af lögreglu. En ekki hvað segi ég nú bara. Er hægt að bera saman grunaða gerendur í skemmdarvekum og meint fórnarlömb kynferðislegs áreitis ?

Svo vitnaði hún í það sem stóð í DV um helgina, þar var haft eftir prestinum að hann væri bara svo sérlega hlýr maður sem hefði það fyrir sið að faðma sóknarbörnin sín. Það væri nú aldeilis ljótur heimur ef prestar mættu ekki faðma sóknarbörnin sín.

 

Arnþrúður sem er eldri en tvævetur og hefur faðmað fleiri  en einn og fleiri en tvo karla, skyldi ég ætla, ætti að vita að faðmlag er ekki alltaf það sama og faðmlag. Faðmlög geta verið af ýmsum toga sem og önnur snerting nú eða koss. Kossar eru líka af ýmsu tagi,  það ætti hún sem fullorðin og lífsreynd  kona að vita. 

Við vitum líka að til er fólk sem oftúlkar alla hluti og gæti þess vegna séð kynferðislega áreitni þar sem hún er alls ekki.

Lögreglan hefur oftar en einu sinni klúðrað rannsókn kynferðisafbrotamála, sérstaklega gegn börnum, vegna þess að þeir kunna ekki til verka á því sviði 

 

Þetta gerir svona mál einmitt svo flókin og viðkvæm og ætti auðvitað ekki að fjalla um þau í fjölmiðlum og sérstaklega ekki á frumstigi.  

Mér finnst fjölmiðlafólk bera mikla ábyrgð og við hljótum að gera kröfu að það fjalli um mál af fagmennsku og nærgætni þegar það á við. Ekkert síður þegar stöðvar eru einkareknar. Mér þótti hún geta sagt ótrúlega margt um mál sem hún sagðist svo ekkert vita um.

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Ég hélt langa ræðu yfir Tryggva mínum í morgun yfir þessari fáránlegu skoðanakönnun á Útvarpi Sögu. Það væri eins hægt að spyrja: Er augnaráð kynferðisleg áreitni? Við vitum að fólk getur horft bæði girndaraugum á annað fólk og svo blíðlegum augum. Fólk talar um að ,,drepa með augunum eða ,,afklæða með augunum."  Bæði augnaráð og faðmlög eru til í fjölmörgum útgáfum,  það skiptir líka máli hver faðmar hvern, hvort að sá sem er faðmaður er forspurður eða ekki eða eins og þú segir faðmlag er ekki það sama og faðmlag!

Eins og það er margt skemmtilegt og gagnlegt á Útvarpi Sögu þá ber hún keim af ákveðnum Molbúahætti!

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 6.5.2008 kl. 09:09

2 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Algjörlega sammála þér. Það var einmitt þessi fáránlega skoðanakönnun sem varð til þess að ég skrifaði þennan pistil.

Þóra Guðmundsdóttir, 6.5.2008 kl. 09:18

3 Smámynd: Jóhann Hannó Jóhannsson

Skoðanakannanirnar á Sögu eru í sérflokki, spurningarnar eru leiðandi og oft á tíðum er t.d. Arnþrúður búinn að tala svo oft og svo mikið fyrir "réttu" svari að könnunin er að mínu mati ónýt.  Eins og þessi könnun sem þið ræðið um, hún er náttúrulega alveg út í hött.  Arnþrúður má sannarlega passa sig betur, ekki síst í þeim málum sem um er rætt hér.  Hún hefur til dæmis algera ímugust á öllum "barnaverndarnefndum" að því er virðist og dæmir þær hægri vinstri án þess að vita nokkuð um viðkomandi mál.  Það getur oft verið gaman að Sögu en maður þarf oft að vanda sig við hlustun!!

Jóhann Hannó Jóhannsson, 6.5.2008 kl. 09:26

4 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæl Þóra. Þetta er einn besti pistill sem ég hef lesið hjá þér , já virkilega góður og orð í tíma töluð.  Ég hef hlustað mikið á Útvarp Sögu í gegnum tíðina en þar hefur hver öfgamaðurinn tekið við af öðrum og skemmt manni í gegnum tíðina. Fyrst fór ég að hlusta á Ingva Hrafn og var alveg viss um að hann væri stundum blindfullur í vinnunni og síðan á Eirík Stefánsson, hélt lengi að hann væri brjálaður. Sigurður G Tómasson og Guðmundur Ólafsson eru auðvitað perlur eins og allir vita og vita allt.  Er ekki Sverrir Stormsker kominn þarna líka? Varðandi Arnþrúði sjálfa þá er hún "i lit" ef svo má segja , mikill karakter sem  hefur alltaf ákveðna skoðun á málunum og kynnir þau vel áður en hún hleypir kverílentum að í innhringingum. Ég man hvað ég var gáttuð þegar hún var að úttala sig um Jónínu Ben (fyrrverandi vinkonu ef ég hef skilið þær rétt)og Bónusmálið. Nú hefur hún kosið Jóhannes í Bónus mann ársins ekki satt. Nú veit ég ekkert um þessa skoðanakönnun því ég er hætt að hlusta á Sögu þar sem það hlýtur að gera hlustendur mjög svartsýna og niðurbrotna, sérstaklega ungt fólk sem auðveldlega fyllist kvíða yfir verðbólguskotinu og hundleiðinlegt að hlusta á rausið. Hvort hún er reynd eða ekki í karlamálum finnst mér ekki skipta neinu máli. Það er líka munur á hvort um ásökun um misnotkun  eða áreitni er að ræða. Áreitni ætti að falla undir lögregluna en misnotkun undir Barnahús og barnaverndarnefndir finnst mér og er sammála henni þar. Það er erfitt að dæma en ég , eins og hún, trúi frekar á samsæri gegn prestinum en að blíðuhót hans og væntumþykja sé kynferðisleg. Það fer alltaf eftir upplifun viðkomandi og ætti sá/sú  að geta tjáð sig um upplifun sína við viðkomandi í stað þess að kæra. Bestu kveðjur Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 6.5.2008 kl. 22:56

5 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Mál prestsin á Selfossi er dapurlegt og það bera að fara mjög varlega með slíkt. Í morgun heyrði ég í fréttum að 3. kæran hefur borist sýslumanni.

Ég trúi ekki að ungar stúlkur séu með neitt samsæri gegn prestinum eins og kemur fram hér að ofan.

Það ber að sjálfsögðu að líta þetta mjög alvarlegum augum.

Ég er löngu hætt að hlusta á Útvarp Sögu, ég er afar ánægð með Gufuna, hún er mjög svo fræðandi útvarpsrás.

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 7.5.2008 kl. 13:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband