Færsluflokkur: Dægurmál

Hann er ekki sonur minn.

Ég fór í Europris úti á Granda í dag. Þar var strákur ca. 14 ára að afgreiða. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi nema vegna þess að þarna er selt tóbak. Eins og flestum er kunnugt er ólöglegt að láta krakka yngri en 18 ára afgreiða tóbak.

Ég benti verslunarstjóranum sem er að ég held pólskur, á þetta en þá svaraði hann : "Hann er ekki sonur minn" Þegar ég sagði að þetta væru lög þá yppti hann bara öxlum.

Hvers vegna komast kaupmenn upp með þetta endalaust ? Eigum við svo að trúa því að þeim sé treystandi til að fara eitthvað betur með áfengið ? 

Best að bæta því við að lögreglan sýnir svona málum takmarkaðan áhuga. Í fyrra vissi ég af því að áttundubekkingar sem voru að vinna í Nóatúni við Hringbraut, voru að selja jafnöldrum sínum sígarettur.

Ég byrjaði auðvitað á því að tala við verslunarstjórann, hann var átakanlega ungur en ætlaði samt að  reyna að gera sitt. Næst hringdi ég í lögregluna og þar var mér tekið heldur fálega það er líka svo voðalega mikið að gera hjá þeim. Þar sem ég var nú ekki alveg á því að láta vísa mér á bug með erindið var mér bent á einhverja deild sem ég man ómögulega hvað heitir, sértæk eitthvað, og þar var enginn sérstakur áhugi heldur.  Þeir ætluðu jú að "kíkja á þetta"

Þá talaði ég við Lýðheilsustöð en þar innanborðs er apparat sem heitir  tóbaksvarnir sem hefur að hluta tekið yfir það sem hét tóbaksvarnaráð  þar fannst mér ég hreinlega skynja uppgjöf "það er svo voðalega lítið hægt að gera".

Ég sem hélt að hægt væri að svipta verslanir leyfi til tóbakssölu. 

Að lokum hafði ég svo samband við aðalstöðvar Kaupáss sem reka búðirnar og þeir ætluðu að taka á málinu en bættu því við að það væri ógurlega erfitt þar sem starfsfólkið væri svo ungt. 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband