Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Satt eða logið?

Satt og logið sitt á hvað,

sönnu er best að trúa.

En hvernig á að þekkja það

þegar flestir ljúga. 

Eftir að hafa hlustað á málflutning Geirs og Jóns Ásgeirs, er alveg ljóst að annar hvor þeirra segir ósatt. Ég get ómögulega metið það en mér finnst að það þurfi að rannsaka málið af til þess bærum aðilum.

Ef það kemur á daginn að þessi aðgerð ríkisins var óþörf, ef Jón Ásgeir hefur rétt fyrir sér, þá, já þá er ég hrædd um að þessi ríkisstjórn sé búin að vera og þá ættu einhverjir að fara á bak við lás og slá.

Ásakanirnar á báða bóga eru svo alvarlegar að hið sanna verður að koma í ljós.


Hver er sinnar gæfu smiður.

Þessi orð lét Lárus Welding falla í Silfri Egils, fyrir rúmri viku. Ætli hann sé enn sömu skoðunar.

Á vef DV segir hann hörku í kröfu ríkisins hafa komið á óvart. Sennilega er þetta í fyrsta sinn sem hann kemst nálægt því að vera í svipaðri stöðu og Jón Jónsson er alla jafna, þegar hann þarf að leita á náðir síns banka í erfiðleikum.

Þegar allt lék í lyndi og peningarnir virtust beinlínis vaxa á trjánum skömmtuðu þessir menn sér launin eins og þeim sýndist. Þegar almenningur hafði ýmislegt við það að athuga sögðu þeir að okkur kæmi þetta ekki við. Við vorum meira að segja ásökuð um öfund.

Núna kemur heldur betur á daginn að okkur kemur málið við. Réttast væri að lækka launin þeirra nú þegar.  Það er að segja haldi þeir vinnunni.



mbl.is Ríkið eignast 75% í Glitni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru menn í afneitun eða eru þeir bæði blindir og heyrnarlausir?

Hvorki Geir né Ingimundur vilja tala um krísufund. Þeir voru bara að ræða saman og fara yfir málin. Ég verð að segja að miðað við efnahagsástandið í landinu, uppsagnir og stöðu krónunnar þá hefði mér liðið betur ef mennirnir hefðu verið á krísufundi.

Í rauninni ætti öll ríkisstjórnin og aðilar vinnumarkaðarins að vera á krísufundi. Með þeim ættu að vera þeir sérfræðingar sem hægt er að kalla til við þessar aðstæður. Þing ætti að koma strax saman og menn ættu að leita allra mögulegra leiða til að finna lausnir.

Það er óþolandi að horfa á endalaust aðgerðaleysi.


mbl.is Enginn krísufundur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er það nema von að fólk sé feitt ?

Það virðist vera einlægur ásetningur fjölmargra aðila og víðtæk samstaða um að fita þjóðina. Á ótrúlegustu stöðum er sælgæti til sölu. Í verslunum sem selja bílavarahluti er sælgæti stillt upp við kassana, í byggingavöruverslunum bæði Byko og Húsasmiðjunni er sælgæti við kassana.

Í matvöruverslunum eins og Hagkaup dugar ekki að vera með heilan sælgætisgang og sælgæti við kassana heldur þurfa þeir að planta því út um alla búð innan um aðrar vörur. Ef ske kynni að manni hefði tekist að sneiða hjá því annars staðar.

Meira að segja er sælgæti til sölu þar sem ég lét skoða bílinn minn um daginn. Það var reyndar soldið skondið. Standar með sælgæti voru sitt hvoru megin á afgreiðsluborðinu þannig að ég rétt svo gat skrifað á strimilinn.

Ég spurði stelpuna sem var að afgreiða, hvort hún vissi hvers vegna í ósköpunum sælgæti væri til sölu á þessum stað. Jú ekki stóð á svari "Fólk vill þetta, við erum bara að svara eftirspurn" selst þetta þá vel ? "já alveg rosalega þetta er líka á svo góðu verði, næstum engin álagning" Hún bætti því líka við að þetta væri soldið vont fyrir stelpurnar sem ynnu þarna. Erfitt að standast svona freisingu, beinlínis með þetta í andlitinu alla daga og það líka á svona ljómandi góðu verði.  

 


Frjálslyndi flokkurinn fyrir landsbyggðarfólk, ekki Reykvíkinga.

Þar kom það. Þetta eru orð innvígðra og innmúraðra flokksmanna. Reykvíkingar eiga ekkert erindi uppá dekk.

Fyrir hartnær ári síðan átti ég þátt í að stofna kjördæmafélög í Frjálslynda flokknum í Reykjavík. Tilgangur þessara félaga var að koma á flokkstarfi í borginni sem hafði ekki verið til.

Ætla mætti að það væri forystu flokksins að skapi en það var öðru nær. Allt frá upphafi mættum við ótrúlegu mótlæti af hálfu forystu flokksins. Lengi vel var erfitt að átta sig á því, erfitt að festa fingur á því hvað var í rauninni sem hún hafði á móti okkur.

Svo var farið að túlka viðleitni okkar til að koma á flokkstarfi, sem aðför að landsbyggðinni og ég veit ekki hvað og hvað. Núna loksins er þetta komið á hreint. Frjálslyndi flokkurinn er landsbyggðarflokkur og ætlar sér ekkert annað. 

Þessar klausur eru teknar af bloggsíðu Ásthildar Cecil sem er ein af flokkseigendunum, fyrri klausan úr grein sem birtist í Mogganum í dag en seinni klausan er úr svari sem hún gefur á síðunni. 

"Málefni Reykjavíkur eru vissulega góðra gjalda verð, en það vill svo til að flokkurinn mælist ekki með mikið fylgi þar, sem sýnir að styrkur hans liggur á landsbyggðinni, enda ekki vanþörf á að vinna að þeim málefnum sem brenna á hinum dreifðu byggðum landsins. Út af þeirri stefnu höfum við aldrei vikið, og förum vonandi ekki að gera það nú."

"Málefni borgarinnar, eru góð og gild, en það eru nógir sem hafa þau á sinni könnu.  En Frjálslyndi flokkurinn er í raun og veru eini dreifbýlisflokkurinn, og með karlinn í brúnni, er tryggt að það gleymist ekki.  Ef til dæmis Jón Magnússon, sá ágæti maður tæki að sér formennsku í flokknum, eins og mér heyrðist að hann byði sig til, þá hef ég einfaldlega ekkert að gera í þessum flokki, því þá yrðu borgarmálin bara ofaná.  þannig er það. "

Ekki veit ég hvernig Ásthildi hefur "heyrst"  Jón bjóða sig fram til forystu. Ég hef ekki heyrt það.


Menn eru fljótir að gleyma.

Eru menn búnir að gleyma þeirri gjá sem myndast hafði á milli Margrétar Sverrisdóttur og formanns Frjálslynda flokksins? Í aðdraganda síðasta landsþings dró Margrét það í lengstu lög að gefa  upp hvort hún ætlaði að bjóða sig fram til formanns eða varaformanns. Hún var harðákveðin að sækjast eftir öðru hvoru embættinu, jafnvel þó báðir hefðu þeir lýst því yfir að þeir vildu vera áfram. Að lokum sóttist hún eftir varaformennsku þvert á vilja formannsins.
mbl.is Illvígar deilur Frjálslyndra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna?

Um daginn var ég stödd í apóteki. Inn kom ungur maður, á að giska um tvítugt. Hann var svo feitur að hann átti erfitt um gang og virtist eiga erfitt með öndun líka.

Hann framvísaði átta lyfseðlum. Ég komst ekki hjá því að heyra hluta af samtali hans við lyfjafræðinginn og þá kom í ljós að hann var á þunglyndislyfjum, róandi lyfjum, astmalyfjum, ofnæmis, blóðþrýstings og sykursýkislyfjum og fl.

Drengurinn var svo augljóslega búinn að missa öll tök á sínu lífi fyrir löngu og ég sá ekki betur en að hann væri hreinlega í lífshættu.

Margar spurningar vöknuðu. Hvers vegna var ekki búið að grípa inní ? Hvers vegna var hann ekki inni á stofnun í viðeigandi meðferð?  Hvers vegna skrifaði læknirinn uppá alla þessa lyfseðla og hvers vegna fékk hann þá alla afgreidda í apótekinu. Ég þykist viss um að ef hann hefði verið með svöðusár á líkamanum eða með opið beinbrot þá hefði verið hringt á sjúkrabíl með hraði og honum veitt viðeigandi hjálp.

Hvers vegna er litið niður á offitusjúklinga? Hvers vegna eru ekki næg úrræði í boði? 

Sjúkleg offita getur átt sér ýmsar orsakir. Oft er hún ein birtingamynd þunglyndis. En hver svo sem orsökin er þá er það alveg klárt að þegar fólk er búið að missa tökin á sínu lífi á það að geta fengið hjálp. við hæfi.


Neytendasamtökin skora á stjórnvöld

Nú síðdegis lauk þingi Neytendasamtakanna sem stóð í tvo daga. Þar fóru fram fjörugar umræður um eitt og annað og ályktanir og áskoranir voru samþykktar.

Á þinginu var skorað á  sjálfa ríkistjórn Íslands, einsök ráðuneyti og ráðherra. Þess var jafnvel krafist að þessir aðilar gripu til þessara og hinna aðgerða. Ekki hvarflaði það samt að nokkrum manni að það væri hið minnsta óeðlilegt eða að hægt yrði að túlka það sem svo að fólk væri að skipa því ágæta fólki fyrir verkum.

Mig langaði bara að benda á þetta vegna þeirra viðbragða, sem áskorun Miðstjórnar Frjálslynda flokksins, hefur vakið.


Verði Össuri að góðu.

Ég er hrædd um að þetta boð Össurar veki ekki kátínu hjá félögum hans í Samfylkingunni. Annars væri  fróðlegt að vita hvað það tæki Kristinn langan tíma að gera alla vitlausa í Samfylkingunni.

Án gríns þá er þessi pistill Össurar  hreinræktað bull. Mér finnst það mjög miður að stjórnmálamaður sem vill láta taka sig alvarlega fari með svona rangfærslur, hvað þá ráðherra. Enn alvarlegra er það ef hann gerir það vísvitandi.

Óvinsældir Kristins innan flokksins hafa akkúrat ekkert með afstöðu í innflytjendamálum að gera hins vegar virðast sumir kjósa að svo væri. 

Þeir sem horfðu á Silfur Egils síðastliðinn sunnudag ættu ekki að velkjast í vafa um að hann hefur alveg einstakt lag á að verða sér úti um andstæðinga. Rétt sisvona gekk hann lengra en sjálfur Sigurður Kári, í að verja eina óvinsælustu ákvörðun síðari tíma (málsókn á hendur ljósmæðra) og hann hjólaði í Anrés Magnússon og tók málstað bankanna gegn almennum lántakendum.

Einmitt með þessum hætti hefur Kristinn H. hagað sér í flokknum. Ég er þess fullviss að þó svo það hefði verið einlægur ásetningur hans að eignast eins marga andstæðinga og mögulegt er á sem skemmstum tíma hefði honum ekki tekist betur. 


mbl.is Össur býður Kristin H. velkominn í Samfylkinguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað gerist næst?

Þessi áskorun Miðstjórnar ætti ekki að koma þeim sem til þekkja á óvart. Undanfarið hefur óánægja með Kristinn H. farið stigvaxandi á meðal flokksmanna. Þetta er því eins og nokkurskonar endapunktur á talsvert löngu ferli.

Eins og Magnús Þór bendir réttilega á þá er það auðvitað ákvörðun þeirra fjögurra sem skipa þingflokkinn, hver er formaður.  

Hins vegar hefur Miðstjórn, og reyndar fjölmargir aðrir flokksmenn, nú komið sinni skoðun á framfæri með afgerandi hætti. 

Því verður fróðlegt að fylgjast með því sem gerist næst.


mbl.is Miðstjórnin vill Jón sem þingflokksformann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband