Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Dýr lyf vegna margra smárra apóteka.Villandi fyrirsögn.

Eins og allir vita og hafa vitað lengi hefur lyfjaverð hér á landi verið með því hæsta sem þekkist í víðri veröld. Aftur og aftur er gerð úttekt og skýrslur um málið en minna hefur farið fyrir aðgerðum. Nú segir frá skýrslu vinnuhóps lyfsala, lyfjagreiðslunefndar og ríkisendurskoðunar, á fréttavef ruv

Í skýrslunni segir einnig að reiknilíkan hafi leitt ótvírætt í ljós að ef unnt væri að fækka lyfjaverslunum mætti ná fram lækkun smásöluálagningar án þess að það kæmi niður á afkomu greinarinnar. Slík fækkun gæti þó orðið til þess að minnka samkeppni.

Það er einmitt málið "mætti ná fram" Það þýðir alls ekki að það yrði þannig. Allar líkur benda til þess að ef um hagræðingu yrði að ræða þá rynni hagnaðurinn beint til lyfsalanna sérstaklega þar sem samkeppni yrði enn minni en hún er í dag.

Það er líka athyglisvert og kemur hvergi fram í skýrslunni, allavega ekki fréttinni um skýrsluna, að nú eru það einmitt minnstu apótekin sem bjóða lægsta verð á lyfjum. 

Ég get nefnt sem dæmi Rima apótek, sem lætur sér í mörgum tilfellum nægja hlut tryggingastofnunnar í lyfjunum en sleppa kaupandanum við að borga. Ég þarf til dæmis oft að kaupa astmalyf. Hjá stóru apótekunum er minn hlutur í heildarverði 5.000.- kr.,  en í Rima apóteki er veittur afsláttur sem nemur þeirri upphæð svo að ég borga ekki neitt. Ég veit að þannig er því háttað með mörg önnur lyf. 

Þetta segir mér að álagningin sé nokkuð mikil því mér dettur ekki í hug að halda að Rima apótek sé að gefa mér nokkuð heldur hafi þeir samt sem áður eitthvað út úr viðskiptunum. 

Ég hvet því alla til að gefa sér tíma til að kanna verð á lyfjum áður en þau eru keypt, ekki bara labba í næsta apótek umhugsunarlaust.  

 

 


Meiri maður ?

Það er athyglisvert að lesa skrif sumra um þessa afsökunarbeiðni Kristjáns. Mörgum finnst hann maður að meiri við að viðurkenna það sem þeir kalla mistök og  biðjast afsökunar.

Ég myndi alls ekki kalla þetta mistök hjá Kristjáni, ekki frekar en ég myndi kalla þetta klúður með Grímseyjarferjuna mistök.

Kristján sýndi aftur á móti mikinn dómgreindarskort þegar hann lét þessi orð falla um Einar, og í rauninni bætir hann um betur þegar hann  segir að hann hafi aldrei litið svo á að Einar hafi einn borið ábyrgð á þessu máli. Hvað vakti þá fyrir honum ?

Þegar maður kýlir mann, á hann þá skilið eitthvað hrós fyrir að segja "fyrirgefðu" ?

Mönnum er alltof tamt að tala um mistök þegar um hreina vanhæfni er að ræða.


mbl.is Kristján biðst afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miðbær Reykjavíkur

Ástandinu í miðbænum á kvöldin um helgar má alveg líkja við stríðsástand og löngu tímabært að taka í taumana. Umburðarlyndi almennings og yfirvalda hefur í rauninni verið stórfurðulegt. Eins og að það sé sjálfsagt að um hverja helgi sleppi fjöldi fólks svo fram af sér beislinu að ætla mætti að hver sé að verða síðastur að fríka út,  því heimsendir sé á morgun.

Svo finnst sumum bara í lagi að létta á sér hvar svo sem þeir eru staddir þá stundina, vegna þess að þeir eigi ekki annarra kosta völ.

Þeir velja sér stað til að halda útihátíð, eins og götur borgarinnar án þess að þar sé nokkur aðstaða til slíkra hluta í stað þess að  fara hreinlega á skemmtistaði þar sem reiknað er með fólki og tilheyrandi útbúnaður er til staðar eins og t.d. salerni. 

Það á  ekki að vera sjálfsagt að fólk fari á hvínandi fyllerí og alls ekki um hverja helgi. Það á heldur ekki að vera sjálfsagt að drukkið fólk geti bara hagað sér eins og því sýnist og segja svo bara : hvað  er þetta ég var bara full(ur) og þar með sé hann bara stikkfrí.

Sumum finnst bara í lagi að láta mannasiði lönd og leið þegar þeir detta í það en þannig á það alls ekki að vera.

Ég held til þess að breyta þessu þá þurfum við öll að standa saman.  Þetta er ekki eitthvað sem lögreglan ein ræður við. Hér þarf hreinlega hugarfarsbreytingu. Við þurfum að vera sammála um að svona viljum við ekki hafa þetta og hver og einn þarf að líta í eigin barm og laga sig og sína hegðan.

 

 


mbl.is Hiti í gestum miðborgarþings í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband