Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Lækkun áfengisverðs

Ég horfði á Ágúst Ólaf í Kastljósi og úff. Þetta var skelfilegt. Það að lækka áfengisverð virðist vera hans hjartans mál. 

Ef áfengisreikningur heimilisins er of hár þá er vandans að leita annars staðar en í áfengisverðinu.

Ágúst Ólafur hefur engin rök fyrir lækkuninni. Hann reyndi meira að segja að halda því fram að börn alkahólistans væru betur sett ef áfengisverð yrði lækkað, það gerði það að verkum að þá ætti hann meiri pening  handa börnunum.

Hann hélt því fram að hvergi væri áfengisvandi meiri en á Íslandi því til stuðnings nefndi hann að hvergi hefðu fleiri farið í meðferð, það var þá, veit hann ekki að hvergi er eins auðvelt aðgengi að meðferðarúrræðum ?.

Svo er þetta einfaldlega rangt, áfengisvandi er mjög víða mun meiri, til dæmis í Bretlandi, Danmörku, Frakklandi og ekki síst Rússlandi.  Þetta er  skilgreiningaratriði.

Ágúst Ólafur fullyrðir að áfengi sé aðeins slæmt fyrir ofdrykkjumenn. Það er heldur ekki rétt, það eru ekki  aðeins alkahólistar sem drekka sér til tjóns. Hófdrykkjumennirnir geta líka auðveldlega drukkið í sig alskyns kvilla og sjúkdóma með tímanum og aukin drykkja þó svo um hófdrykkju væri að ræða myndi alveg hiklaust auka álagið á heilbrigðiskerfið sem er ærið fyrir.

Heldur Ágúst Ólafur að ástand í áfengismálum, sem hann segir vera ákaflega slæmt á Íslandi, myndi lagast ef verð á áfengi myndi lækka ? 

 Það er líka alveg stórmerkilegt að þingmenn skuli af öllu líta á það sem forgangsverkefni að lækka verð á áfengi. 

Við hér á Íslandi búum við þau ósköp að flestir hlutir hér eru þeir dýrustu í heimi. Við þurfum að taka dýrustu lánin til íbúðakaupa, við greiðum hæsta matvöruverð í heimi og verð á lyfjum er hér mun hærra en annars staðar. Lengi hefur verið bent á hinn ósanngjarna skatt sem liggur í handahófskenndum vörugjöldum sem leggjast á alla hluti sem fluttir eru inn. Viðborgum fáránleg stimpilgjöld sem allir virðast vera sammála um að sé löngu úreltur skattur en það er aldrei rétti tíminn til að fella hann niður, en það virðist vera þverpólitísk samstaða um að lækka verð á áfengi.

Ég held að mönnum sé bara ekki sjálfrátt. 


Trén á Þingvöllum

Ég má til með að lýsa ánægju minni yfir því að það eigi að fjarlæga barrtrén á Þingvöllum.

Þau hafa alla tíð stungið mjög í stúf við staðinn og þann gróður sem fyrir var. Sérstaklega eru þau áberandi óviðeigandi á haustin og vetrum. Ekki voru Alaska asprinar betri.

Það voru skiljanleg mistök á þeim tíma sem þessi tré voru gróðursett þar. Íslendingar voru eðlilega ákafir í viðleitni sinni við að græða upp landið og hlupu á sig.

Menn hefðu gróðursett hvað sem væri bara ef það hefði vaxið þannig að við megum bara þakka fyrir að pálmatré þrifust ekki hér, annars hefðum við þurft að horfa upp á pálmatré hér út um víðan völl, með fullri virðingu fyrir pálmatrjám þau eiga bara alls ekki við hér á landi frekar en barrtré á Þingvöllum.

Mér finnst það bara frábært að menn skuli hafa dug í sér og leiðrétta þessi mistök. 


Já hvar skyldi hann vera ?

Það er í rauninni mjög skrítið að nú á okkar tímum þegar mannkynið veit svo ótal margt, hvað við vitum samt lítið um stóru málin.

Það eina sem við vitum fyrir víst er að við munum öll deyja fyrr eða síðar. Einn daginn er þetta bara búið.  Allt hversdags argaþras gufar upp og við, sem erum svo óskaplega "ómissandi", hverfum bara og viti menn jörðin heldur áfram að snúast.

Enn veit enginn hvert við förum þegar við deyjum eða hvort við förum yfirleitt eitthvert þegar við deyjum.

Hvað vorum við fyrir þetta líf eða hvar vorum við og hver erum Við ?. 

Það eina sem fólk getur gert er að grípa til trúar af einhverju tagi. Það er hægt að trúa því að við förum til guðs eða ekki, þegar við deyjum. Það er líka hægt að trúa á einhverskonar annað líf, endurholdgun eða endurfæðingu.

Það er auðvitað líka bara hægt að trúa því að þegar við deyjum þá slokkni bara á okkur fyrir fullt og allt. 

Allt er þetta samt bara trú.  

En hvur veit nema við fáum áþreifanleg svör síðar 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband