Vertu með.
Þriðjudagur, 15. apríl 2008
Þegar maður fer í matvörubúð og kaupir margar vörur er ekki séns að maður geti munað merkt hilluverð nema á fáeinum vörutegundum. Á kassanum kemur svo óþægilega oft í ljós að verðið er hærra en það var inni í búðinni, eftir því sem maður best man.
Þá finnst mörgum óþægilegt að fara að kvarta, það tekur tíma og vekur athygli svo kemur í ljós að þetta var ekki rétt hjá manni og þá verður maður eins og bjáni.
Eins vantar alltof oft verðmerkingar. Hvað skyldi það vera stór hluti viðskiptavina sem fettir fingur útí það. Mín tilfinning er sú að allt of fáir finni að því og þess vegna komast kaupmenn upp með að hafa þetta svona.
Eftirfarandi tilkynning birtist á heimasíðu Neytendasamtakanna.
Verðupplýsingar eru mjög mikilvægar og því er alvarlegt ef þær eru rangar eða hreinlega ekki til staðar. Sérstaklega er mikilvægt að verðmerkingar í matvöruverslunum séu góðar. Neytendasamtökin hvetja neytendur til að taka þátt í samstilltu átaki miðvikudaginn 16. apríl á milli 15 og 18. Markmiðið er að hvetja verslanir til að sinna verðmerkingum betur og sjá til þess að þær séu ávallt réttar og til staðar.
Skylt að verðmerkja
Allar vörur eiga að vera verðmerktar enda er það forsenda þess að neytendur geti tekið meðvitaða ákvörðun við kaup. Því miður er allt of algengt að verðmerkingar vanti eða að verðupplýsingar séu rangar og slíkt er ólíðandi. Í matvöruverslunum getur verð á hillukanti verið annað en verð á kassa og dæmi eru um að tilboðsverð skili sér ekki á kassann.
Átakið felst í því að virkja sem flesta neytendur því með samtakamætti getum við haft áhrif og gert seljendum ljóst að við sættum okkur ekki við ófullnægjandi, rangar eða jafnvel engar verðupplýsingar
Svona förum við að:
- Í hvert skipti sem vara er sett í körfuna skrifar þú verðið á lítinn límmiða sem þú límir á vöruna.
- Ef ekkert verð er sjáanlegt við þá vöru sem þú hyggst kaupa límir þú rauðan límmiða á hillukantinn, Þannig sjá starfsmenn hvar verðmerkingar vantar.
- Þegar komið er á kassa fylgist þú með að kassaverðið sé það sama og verðið sem þú skráðir niður. Einnig má skoða strimilinn og bera saman við límmiðana þegar búið er að borga.
Fulltrúar Neytendasamtakanna og sjálfboðaliðar verða við nokkrar verslanir með límmiða til taks og leiðbeina öllum sem vilja taka þátt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Það er bara þannig.
Laugardagur, 12. apríl 2008
Vegna færslu sem ég setti inn í gær vil ég taka eftirfarandi fram.
Hún var ekki meint gegn neinum sérstökum.
Það er mín skoðun að ef fólk kemst í þrot í sínum málum þá er ekkert eðlilegra né sjálfsagðara en að leita sér hjálpar og skiptir þá engu máli af hvaða toga vandinn er.
Þeir sem hafa lent í vandræðum með áfengi hafa í mörg ár getað fengið hjálp á vegum SÁÁ og víðar og er það bara hið besta mál og engum til minnkunar sem það gerir, síður en svo.
Nú nýverið var farið að bjóða fólki sem á í vanda með holdafar sitt, upp á svokallaðar hjáveituaðgerðir og ég sé heldur ekkert að því, mér finnst það bara gott mál.
,Það er líka staðreynd að Íslendingar hafa átt í basli með efnahagsstjórnina svo lengi sem ég man, sjálf hef ég farið illa út úr þeirri óstjórn.
Lengi var því haldið fram að það væru bara vinstri menn sem klúðruðu fjármálum en atburðir síðustu vikna hafa sýnt okkur að Sjálfstæðismenn, sem gátu látið mig og aðra trúa því að þeir væru þeir einu sem hefðu vit á fjármálum, eru alveg jafn vonlausir í þessum efnum.
Því tel ég það vera augljóst að við verðum að leita nýrra leiða, PUNKTUR.
Þetta var nú allt og sumt sem ég meinti.
Bloggar | Breytt 17.4.2008 kl. 13:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Það var og.
Laugardagur, 12. apríl 2008
Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir.
Ekkert dýr má segja neitt ljótt um annað dýr.
Ekkert dýr má segja nokkuð það sem er óþægilegt eða vont og annað dýr gæti hugsanlega kannski haldið að ætti við sig, þó svo það sé ekki meint þannig.
Þessi mynd er ekki af neinum sérstökum ketti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fullkomið ábyrgðaleysi.
Föstudagur, 11. apríl 2008
Ég er alveg gáttuð á svona yfirlýsingu. Það er mikill ábyrgðahluti að senda frá sér svona yfirlýsingu þrátt fyrir að menn gæti grunað að svona fari.
Yfilýsing af þessu tagi gæti ein og sér orðið til þess að íbúðaverð hrapaði þó svo ekkert annað kæmi til.
Huggulegt eða hitt þó heldur að fá svona framan í sig. Þenslan undanfarin ár hefur að stórum hluta verið stjórnvöldum og bönkunum að kenna. Venjulegt fólk hefur furðað sig á ofboðinu og hraðanum á öllum framkvæmdum.
Ég sjálf hélt satt að segja að heimurinn væri við það að farast og allt kapp væri lagt á að hafa byggt sem mest og flottast áður en það gerðist. Það væri agalegt ef það spyrðist út Íslendingar hefðu ekki náð að byggja skrilljón íbúðir áður.
Minnir á Lása kokk sem hreinlega varð að vaska upp áður en dallurinn sökk.
Heilmikið launaskrið átti sér stað á flestum sviðum en síst í byggingariðnaði og alls ekki hjá byggingaverkamönnum.
Nú eru það einmitt þeir sem nutu "góðærisins" hvað síst sem þurfa að taka skellinn. Því er skellt á forsíður flestra blaða að það verði þeir sem missa vinnuna. Þeir sem minnst höfðu fyrir voru líka þeir síðustu til að taka þátt í ofboðinu og allar líkur eru á því að þeir hafi fengið hlutfallslega hæstu lán á sínar íbúðir og þar af leiðandi myndi lækkun íbúðaverðs koma harðast niður á þeim.
Alltaf sama sagan, svo er þeim sagt að herða sultarólarnar.
Ég ætla samt að leyfa mér að vera bjartsýn, eitt og annað er í pípunum í Íslensku efnahagslífi sem ég trúi að hafi góð áhrif.
![]() |
30% lækkun íbúðaverðs að raunvirði til ársloka 2010 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Tvöföldun eða 2+1 ?
Fimmtudagur, 10. apríl 2008
Kröfur um að tvöfalda sem flesta vegi hefur verið hávær uppá síðkastið. Talað er um að tvöföldun sé eina lausnin allt annað hljóti að vera bráðabirgðalausn og okkur ekki samboðið.
Þessu er ég algjörlega ósammála. Nú er það svo að þó svo að sumir virðist halda að við eigum endalaust af peningum þá er það bara staðreynd að svo er ekki.
Þess vegna hljótum við að þurfa að forgangsraða, það þýðir einfaldlega að við getum ekki gert allt sem við viljum, hvorki í þessum málaflokki né öðrum þar sem við erum bundin af kostnaði.
Það er heldur ekki svo að tvöföldun sé skynsamleg hvar sem er þó svo peningarnir væru til. Í fyrsta lagi tekur það lengri tíma að tvöfalda og svo þarf að vera ákveðinn umferðarþungi til þess að vegurinn nýtist ef hann gerir það ekki þá myndast aftur slysahætta en af öðrum toga.
Í vetur snjóaði meira en oft áður. Á vegi eins og Reykjanesbrautinni hleðst snjór síður upp en víða annarstaðar einfaldlega vegna umferðarinnar. Að ryðja tvöfalda braut er auðvitað tvöföld vinna á við að ryðja einfalda og það er meiri hætta á því að það verði þæfingur á veginum. Þegar vegur er tvöfaldur og umferð ekki nægilega mikil, slitnar vegurinn ójafnt og það útaf fyrir sig getur líka skapað vandamál.
Það er merkilegt að þegar maður hefur nefnt þessa lausn 1+2 á Vesturlandsvegi og Suðurlandsvegi þá verða sumir foxillir og spyrja hvort maður vilji ekki bjarga mannslífum.
Jú það er einmitt það sem ég vil, ég vil meira að segja bjarga fleiri mannslífum því ef við nýttum þessa leið 2+1 víðar þá gætum við bæði lagt fleiri slíkar brautir og það tæki styttri tíma og það er hreint ekki svo lítils virði.
Svíar hafa notast við 2+1 í áratugi með góðum árangri og það kom líka í ljós þegar byrjað var á Reykjanesbrautinni, þá var hún í raun 2+1 á köflum til að byrja með og það gerði helling, þá fækkaði slysum. Opinberar umferðartölur sýna það líka að alls staðar þar sem þessi háttur er hafður á er öryggið mjög svipað og ef vegurinn er tvöfaldur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mannlegi þátturinn.
Miðvikudagur, 9. apríl 2008
Frágangur við Reykjanesbrautina er til háborinnar skammar og fáránlegt að menn hafi komist upp með þetta í allan þennan tíma.
Það er líka sorglegt að einhver "frægur" þurfi að lenda í slysi til að eitthvað sé gert.
Án þess að ég eigi sérstaklega við þetta slys enda þekki ég ekki málavöxtu, þá er það staðreynd að langflest bílslys má rekja til þess að bílstjórar haga ekki akstri eftir aðstæðum.
Það er alveg sama hversu öruggir vegirnir verða, fólk þarf að átta sig á því að akstur er dauðans alvara og öryggið verður alltaf undir ökumanni komið. Þegar búið er að tvöfalda vegina er meiri hætta á of miklum hraða.
Vegirnir verða auðvitað aldrei eins og bob sleðabrautir.
Fólk þarf líka að hafa það algjörlega á hreinu að það er ekkert einkamál hvernig það keyrir, eitt andartaks gáleysi, eitt ÚPS og fólk getur örkumlast fyrir lífstíð eða dáið og þar með er líf fjölda fólks komið á hvolf.
![]() |
Reiður út í þá sem bera ábyrgð á Reykjanesbraut |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Kennitöluofnotkun
Þriðjudagur, 8. apríl 2008
Alveg er það stórmerkilegt hvaða fyrirtæki biðja mann um kennitölu.
Þetta fer nett í taugarnar á mér. Nýjasta dæmið er fatahreinsun. Ég fór með buxur í hreinsun og stúlkan voða elskuleg, sagði eins og ekkert væri sjálfsagðara : Kennitala ?? og beið eftir svari.
Ég spurði þá, hvað er ekki nóg fyrir þig að fá símanúmer ?
Nei, þetta er nýtt, nú notum við kennitölu, er það ekki í lagi ?
Nei sagði ég, mér finnst það ekki í lagi.
Mér finnst hreint ekki í lagi að gefa upp kennitölu í tíma og ótíma. Ég held meira að segja að þetta sé sér Íslenskt fyrirbæri.
Bankar heimta auðvitað alltaf kennitölu líka þegar þeir þurfa þær ekki.
Eitt sinn mætti ég í bankann með gíróseðil og pening. Ég ætlaði að borga fasteignagjöldin fyrir tengdamóður mína og eins og hennar er siður lét hún mig fá peninga. Ég rétti fram seðilinn og peningana og þá vildi gjaldkerinn líka fá kennitöluna mína, sagði að það væri alveg bráðnauðsynlegt.
Ég hélt nú ekki, upp hófst þvarg og pex. Ég fjandanum þrjóskari, lét mig ekki þrátt fyrir að gjaldkerinn segði að þetta væri mér fyrir bestu, því ef hann fengi kennitöluna mína þá fengi ég leiðréttingu ef honum yrðu á mistök. Glætan að það hefði verið hægt að klúðra þessu.
Að lokum spurði hann með þjósti hvort ég væri hlynnt peningaþvætti.
Ætli þessi aðferð til peningaþvættis sé mikið notuð ? þessi að borga fasteignagjöld eldri borgara með reiðufé ?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Hann er ekki sonur minn.
Þriðjudagur, 1. apríl 2008
Ég fór í Europris úti á Granda í dag. Þar var strákur ca. 14 ára að afgreiða. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi nema vegna þess að þarna er selt tóbak. Eins og flestum er kunnugt er ólöglegt að láta krakka yngri en 18 ára afgreiða tóbak.
Ég benti verslunarstjóranum sem er að ég held pólskur, á þetta en þá svaraði hann : "Hann er ekki sonur minn" Þegar ég sagði að þetta væru lög þá yppti hann bara öxlum.
Hvers vegna komast kaupmenn upp með þetta endalaust ? Eigum við svo að trúa því að þeim sé treystandi til að fara eitthvað betur með áfengið ?
Best að bæta því við að lögreglan sýnir svona málum takmarkaðan áhuga. Í fyrra vissi ég af því að áttundubekkingar sem voru að vinna í Nóatúni við Hringbraut, voru að selja jafnöldrum sínum sígarettur.
Ég byrjaði auðvitað á því að tala við verslunarstjórann, hann var átakanlega ungur en ætlaði samt að reyna að gera sitt. Næst hringdi ég í lögregluna og þar var mér tekið heldur fálega það er líka svo voðalega mikið að gera hjá þeim. Þar sem ég var nú ekki alveg á því að láta vísa mér á bug með erindið var mér bent á einhverja deild sem ég man ómögulega hvað heitir, sértæk eitthvað, og þar var enginn sérstakur áhugi heldur. Þeir ætluðu jú að "kíkja á þetta"
Þá talaði ég við Lýðheilsustöð en þar innanborðs er apparat sem heitir tóbaksvarnir sem hefur að hluta tekið yfir það sem hét tóbaksvarnaráð þar fannst mér ég hreinlega skynja uppgjöf "það er svo voðalega lítið hægt að gera".
Ég sem hélt að hægt væri að svipta verslanir leyfi til tóbakssölu.
Að lokum hafði ég svo samband við aðalstöðvar Kaupáss sem reka búðirnar og þeir ætluðu að taka á málinu en bættu því við að það væri ógurlega erfitt þar sem starfsfólkið væri svo ungt.
Dægurmál | Breytt 2.4.2008 kl. 00:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Orkuveitan síðust með fréttirnar.
Mánudagur, 31. mars 2008
Merkilegt að þegar ég skrifa þessa færslu er nokkur stund síðan rafmagnið kom á en á vef Orkuveitunnar er sagt að rafmagn verði komið á innan klukkustundar. Það kemur hvergi fram hvenær þetta er skrifað.
![]() |
Rafmagn komið á að nýju |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ber er hver að baki nema sér ....
Föstudagur, 28. mars 2008
Mikill hagvöxtur síðustu ár hér á landi ásamt velheppnaðri einkavæðingu hefur skilað sér í góðri afkomu ríkissjóðs sem meðal annars hefur verið nýtt til að greiða niður skuldir. Hreinar skuldir ríkissjóðs eru nú litlar sem engar og geta fá vestræn ríki státað af slíkri stöðu. Það þýðir að ríkissjóður hefur mikinn fjárhagslegan styrk og getur tekið að láni verulegar fjárhæðir ef á þarf að halda. Það er því engum vafa undirorpið að ríkissjóður og Seðlabankinn gætu hlaupið undir bagga ef upp kæmi alvarleg staða í bankakerfinu. Ég hef ítrekað verið spurður um þetta af erlendum aðilum á liðnum vikum og hef ávallt svarað því til að íslensk stjórnvöld muni við slíkar aðstæður hiklaust grípa til sömu aðgerða og ábyrg stjórnvöld annars staðar. Þetta vil ég árétta nú, sagði Geir m.a. ´
Þetta finnst mér ákaflega athyglisvert. Þarna áréttar hann að bæði ríkisstjórn og Seðlabanki munu standa og styðja við bakið á bönkunum. Þeim bönkum sem á undanförnum árum hafa malað eigendum sínum gull og greitt forstjórum sínum fáránleg ofurlaun á sama tíma og bankarnir hafa lánað almenningi með okurvöxtum.
Þetta getur hann sagt blygðunarlaust á meðan ríkistjórnin dregur lappirnar í það óendanlega við að leiðrétta kjör aldraðra og öryrkja.
Það væri ekki amalegt fyrir almenning í landinu ef hann hefði slíkan bakhjarl þegar eitthvað alvarlegt kemur uppá.
![]() |
Uppsveiflunni lokið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Konur til bjargar íslenskum viðskipta og fjármálaheimi.
Föstudagur, 28. mars 2008

Halla Tómasdóttir, stjórnarformaður Auður Capital mbl.is/Ómar
Mér líst vel á þetta, mér líst líka vel á þessar konur sem standa að Auði Capital og ég hef mikla trú á þeim.
Smá spurning með tímasetninguna, kannski ekki sú heppilegasta og þó, sennilega er þetta einmitt sem við þurfum, núna þegar strákarnir eru búnir að spila rassinn úr buxunum, nýja hugsun og önnur viðhorf.
Áfram stelpur.
![]() |
Hvetur konur í fjárfestingum til dáða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þó fyrr hefði verið.
Fimmtudagur, 27. mars 2008
Nú hefur formaður borgarráðs tilkynnt að nú eigi að laga til í miðbænum. Það er auðvitað bara gott, en mikið rosalega tók þá langan tíma að kveikja á perunni. Það gerðist ekkert fyrr en nánast allir fjölmiðlar og einstaklingar höfðu hamast í gríð og erg til að vekja athygli á ástandinu.
Þó er betra seint en aldrei.
![]() |
Átak gegn niðurníðslu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Halló! einhver blaðamaður. Hvernig er hefðbundinn vinnudagur einkabílstjóra opinberra starfsmanna?
Fimmtudagur, 27. mars 2008
Gaman væri að fylgjast með slíkum degi.Ég hef aldrei getað skilið hvers vegna fólk þarf að hafa einkabílstjóra þó svo það gegni mikilvægum störfum.
Það er auðvitað voðalega þægilegt að setjast alltaf uppí heitan bílinn beint fyrir utan húsið, þurfa ekki að finna bílastæði né heldur sjá um að setja bensín á bílinn o.s.fr. en það er heldur ekki eins og þessi lúxus sé ókeypis, og hver borgar ?
Þetta væri líka í lagi ef þetta fyrirkomulag væri arðbært í sjálfu sér, þ.e. þetta dýrmæta fólk afkastaði meiru yfir daginn fyrir vikið en svo er ekki, þetta snýst fyrst og síðast um þægindi.
Það mætti ætla að fólk dveldi aldrei lengur á sama stað en fáeinar mínútur í senn. Vissulega geta komið erilsamir dagar þar sem þarf að þvælast út og suður og þá mætti alveg notast við leigubíla þá daga en að þannig sé háttað dag eftir dag, því trúi ég ekki.
Það væri fróðlegt að fá svör við eftirfarandi
Hversu margir njóta þessara fríðinda ?
Hvað kostar þetta ?
Hvernig er hefðbundinn vinnudagur bílstjóranna (hvað fer langur tími í hangs og þess háttar) ?
Hvað hafa bílstjórarnir í laun ?
Njóta þeir annarra fríðinda ?
Forseti Borgarstjórnar er einn þeirra sem nýtur þessara fríðinda, fróðlegt væri að vita hvenær það byrjaði og hvers vegna þótti þörf á því.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Útlendingahatur eða bara slæmir mannasiðir ?
Þriðjudagur, 25. mars 2008
Þegar útlendingaóvild eða hatur ber á góma rifjast upp fyrir mér hvernig hlutirnir voru hérna á árum áður þegar útlendingar voru mjög fáséðir á Íslandi
Þá var nú oftar en ekki smjaðrað heil ósköp fyrir þeim, það þótt voða fínt að vera útlendingur og allt þótti fínt sem kom frá útlöndum.
Tengdamóðir mín kom hingað ung frá Englandi árið 1947, nýgift og talaði auðvitað ekkert nema móðurmálið. Hún vildi læra Íslensku en það var nú þrautin þyngri þar sem Íslendingarnir sem hún umgekkst vildu ólmir fá að tala ensku hvort sem þeir gátu það eða ekki þannig að henni sóttist námið frekar illa.
Á þessum árum voru sveitaböllin í blóma, sá blómi stóð ansi lengi. Margir ungir menn fóru á dansleikina í þeim eina tilgangi að berja mann og annan, það er skondið að hugsa til þess að þeir sem voru ungir og sprækir þá eru komnir á hávirðulegan aldur í dag og vilja ekkert af þessum bernskubrekum sínum vita, í besta falli segja þeir að þeir hafi þó slegist heiðarlega þó svo að ein og ein tönn hafi brotnað og stöku bein.
Í gömlum bókum má líka lesa frásagnir af blóðugum götubardögum, þá börðust ungir drengir með prikum og bareflum og menn skiptust í lið eftir búsetu. Það má sjá svoleiðis bardaga í Bíódögum.
Ég átti mitt sveitaballa tímabil á árunum 1976 og 1977 fór á böll á Borg í Grímsnesi, Aratungu, Flúðum og Árnesi. Þá var það hreint ekki óalgengt að ég varð vitni að heiftugum slagsmálum þar sem eina ástæðan fyrir slagsmálunum var sú að "þetta voru Keflvíkingar" þá mátti bara berja ef þeir létu sjá sig á Borg. Ég vissi líka til þess að Selfyssingar voru lamdir í Keflavík.
Ég held að við séum enn á þessu stigi, því miður, núna eru útlendingarnir nýjustu "utanbæjarmennirnir". Þess vegna held ég líka að þetta sé ekki neitt djúpstætt hatur svona yfirleitt en það er auðvitað bara mín skoðun. Því finnst mér að það ætti að fara varlega í fréttaflutning af árekstrum innfæddra og útlendinga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Páskahugleiðing
Sunnudagur, 23. mars 2008
Ég hef aldrei skilið hvers vegna kristnir menn segja föstudaginn langa vera sorgardag. Í mínum huga var krossfestingin nauðsynleg til að upprisan gæti orðið.
Jesú var ekki myrtur heldur tók hann sjálfviljugur að sér að ganga í gegnum þessar hörmungar til þess að frelsa mannkynið frá syndum sínum. Það hefði hann ekki getað ef hann hefði dáið saddur lífdaga í hárri elli.
Mér finnst hins vegar eðlilegt að kristnir menn hafi hægt um sig þennan dag og noti daginn til íhugunar um sínar eigin syndir og þakki Jesú fyrir þá miklu þjáningar sem hann lagði á sig fyrir þá sjálfa og allt mannkynið.
Það er samt ákaflega sjaldgæft að menn geri það, þvert á móti eru þessir svokölluðu bænadagar nú orðið aðallega notaðir til ferðalaga og skemmtana af ýmsu tagi.
Þó svo ég sé ekkert endilega trúuð þá er ég mjög þakklát fyrir þessa hvíldardaga sem við fáum svona af og til í nafni kristninnar, Jólin, Páska og Hvítasunnu. Mér finnst ákaflega gott að nánast allt þjóðfélagið hægi á sér, umferðin verður sáralítil og friður færist yfir. Ég held jafnvel að þjóðarsálin hafi gott af þessu. Maður getur líka verið nokkuð viss um að á þessum dögum fái maður ekki bréf frá Sýslumanni og það útaf fyrir sig er heilmikils virði.
Gleðilega Páska
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)