Húsin í bænum

Helsta vandamál miðbæjarins í Reykjavík til þessa er skortur á heildarsýn og heildarstefnu. Hvert sem litið er sjást þess glögg merki að aldrei hefur verið tekið á skipulagsmálum í heild.

Það eru bara teknar stakar ákvarðanir, ein og ein í einu varðandi hvern blett fyrir sig. Byggður Seðlabanki hér, Hæstiréttur þar, viðbygging við þetta og hitt og svo eitthvert risavaxið ferlíki sem á að heita tónlistarhús. 

Það er löngu tímabært að ákveða hvernig miðbær Reykjavíkur eigi að líta út. Það hefur ekki einu sinni verið tekin ákvörðun um að hann eigi að vera svona ruglingslega sundurleitur, heldur hefur það bara gerst eins og af sjálfu sér.

Niðurstaðan er sú að allir, hvaða stefnu sem þeir kunna að aðhyllast í skipulags- og húsamálum eru hundóánægðir.

 


mbl.is Áhersla á umhverfis- og húsverndarmál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjafmildur Geir.

Mér finnst frekar lítið fara fyrir þessari frétt. Mér þykja það tíðindi að Íslenskur ráðherra gefi erlendum smábæjum peninga rétt sisvona. Það væri líka fróðlegt að vita hvort svona lagað sé algengt, en eftir því sem stendur í fréttinni á vísi  þá veit talskona Bandaríska  ráðuneytisins ekki hversu algengt þetta er og af einhverjum ástæðum var enginn í Íslensku ráðuneyti spurður, hvorki í forsætis- né utanríkisráðuneyti.

Eigið þið laust sæti ?

Vissara að fara fara varlega þegar maður pantar sér far.  Annars er Svandís heppin að það var Dagur en ekki Össur sem var með henni. Ég sé hann enn fyrir mér laga slaufuna sína þegar Ingibjörg Pálmadóttir sem þá var heilbrigðisráðherra hrundi niður við hliðina á honum.
mbl.is „Það er allt í lagi með mig"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað ef ....?

Það hefði nú verið gaman að sjá og heyra viðbrögðin ef þessir ráðherrar (strákar) hefðu nú bara verið ærlegir og sagt sannleikann  þegar þeir voru beðnir um að rökstyðja stöðuveitingarnar.

Össur hefði bara sagt: Hvað er að ykkur ? ég ræð þessu, ég ræð bara vini mína. Til hvers haldið þið eiginlega að maður sé með völd ? Ég er búinn að bíða svo rosalega lengi eftir þessu.

Árni Matt hefði sagt: Sorrý en ég bara varð að gera þetta, ég var búinn að lofa að borga fyrir mig, menn hafa nú verið svo næs við mig. 

Þetta liggur svo í augum uppi að þeir gætu allt eins svarað svona. Það versta er að sennilega hefði það  engu breytt. 


Börn og búðir

 

Flestum börnum finnst bæði erfitt og hundleiðinlegt að fara í búðir. Samt virðast sumir foreldrar líta á búðarferðir sem fjölskylduskemmtun.

 

Ef þið eruð tvö með börnin þá er best að skipta með sér verkum þ.e. annað ykkar verður heima með börnin eða gerir eitthvað skemmtilegt á meðan hitt fer í búðir.

 
Ef þið neyðist til að fara með barnið eða börnin í búðir þá eru hérna nokkur atriði sem vert er að hafa í huga.

Gefið barninu að borða og drekka áður. Svangt og þyrst fólk verður alltaf ergilegt sama á hvaða aldri það er.

Hafið ferðina eins hnitmiðaða og þið getið.  Börnum finnst búðarferðin jafnvel enn verri ef ráfað er stefnulaust úr einni búð í aðra.

Ræðið við barnið/börnin áður en þið leggið af stað, segðu í hvaða búðir þið ætlið að fara, hversu margar og hvað þið ætlið að gera. þau skilja meira en maður heldur. Leyfið börnunum að skoða leikföng eða það sem þau hafa áhuga á.

Ekki reiðast þegar barnið sér eitthvað sem því list vel á og langar í. Það ekki nema eðlilegt að þau rekist á ýmislegt sem freistar.

Gerið hlé á búðarrápi til að fá ykkur hressingu. 

Ef barnið fer að gráta í búðinni, í guðs bænum huggið það, ekki láta það bara gráta.  Það er ömurlegt að sjá fólk í búðarrápi með vansæl og grátandi börn. 


Kynþáttahatur eða bara hrein og tær mannvonska ?

Það getur oft verið erfitt að greina af hvaða rótum illgirni fólks í garð náungans er sprottin. Ég man eftir því þegar ég var lítil að þá var einni stelpu sem bjó í næstu blokk oft strítt illilega. Af einhverjum ástæðum hafði sú saga komist á kreik að mamma hennar notaði bleyju. Krakkar gengu á eftir henni og öskruðu "pissudúkka, það er pissufýla af þér" 

Þessi stelpa var Íslensk og hvít eins og hvítir gerast hvítastir. Ég er ekki í nokkrum vafa um að ef hún hefði verið útlendingur eða öðruvísi á litinn þá hefði þessi illkvittni verið flokkuð undir kynþáttahatur eða fordóma.

Við þekkjum öll mýmörg dæmi um svona hluti, því miður.  Til dæmis hafa rauðhærðir verið uppnefndir svo lengi sem elstu menn muna og krakkar grípa bara til þess sem "hendi er næst". Það getur verið fátækt, drykkjuskapur foreldra samanber "rauðskalli brennivínsson" lesblinda, smámælgi, föt sem falla ekki í kramið og svona mætti lengi telja.

 Þetta er einfaldlega bara hrein illkvittni og mannvonska. 

Mér finnst við verða að gæta þess að falla ekki alltaf í þennan pytt að halda að andstyggilegheit sem við notum hvert gegn öðru sé eitthvað annað en mannvonska. 

 


BANKINN ER EKKI VINUR ÞINN.

Það er ekki laust við að maður fái klígju við að horfa á auglýsingar frá tryggingafélögum og bönkum.  Þetta eru alveg sérstaklega smeðjulegar auglýsingar sem innihalda frasa á borð við : "Tryggingar snúast um fólk", " Ef þú ert tryggður þá færðu það bætt" , Við stöndum með þér"  "Við styðjum við bakið á þér" "heilbrigð samvinna" er einn af nýjustu frösum KB banka.

Kaupþing Banki hefur tilkynnt að framvegis verði ekki hægt að yfirtaka húsnæðislán frá bankanum sem þýðir bara í stuttu máli mikil aukaútgjöld fyrir stóran hóp af fólki. Löng hefð hefur skapast fyrir yfirtökum af þessu tagi þ.e. fólk metur það einfaldlega þegar það kaupir fasteign hvort sé hagstæðara að yfirtaka lánið sem fyrir er á eigninni eða að taka nýtt lán. Það getur verið á báða vegu. 

Nú ætlar Kaupþing sem sagt að rjúfa þessa hefð og þeir einu sem tapa á því eru lántakendurnir. Bankarnir hafa til þessa réttlætt uppgreiðslugjaldið með þeim hætti að lántakandi hafi gert við þá bindandi samning til 25 eða 40 ára sem þeir hafi í sínum útreikningum reiknað með að standi. Með þessu útspili sínu ætla þeir að rifta þessum samningi og ættu því með réttu að borga lántakanum uppgreiðslugjald. 

Mig grunar að hinir bankarnir muni fylgja á eftir, því það væri mjög vogað af KB banka að hætta sér einum út á svona hálan ís. Þeir hljóta því að hafa tryggt sér vilyrði hinna til að fylgja á eftir.


mbl.is Breytt kjör við yfirtöku íbúðalána Kaupþings banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

EF ÞAÐ ER DRUKKIÐ Á RÉTTAN HÁTT.

Eitt öl eða vínglas á dag er hollt,  EF ÞAÐ ER DRUKKIÐ Á RÉTTAN HÁTT, segja ÞRÍR danskir næringarfræðingar sem hafa þróað fjögur NÝ ráð um áfengi. 

Skemmtilegt að Danir skuli miðla þessari speki til okkar, þeir sem kunna einmitt með öl og vín að fara.

Það kann að gera hjartanu gott en alls ekki lifrinni og þeir eru ansi margir sem nota svona ráðleggingar sem afsökun til að drekka meira en þeir eru fáir sem láta þetta eina glas duga. 

Þetta er auðvitað bara rugl. Tíu mínútna gönguferð á dag og glas af vínberjasafa er mun hollara fyrir allan líkamann 

 


mbl.is Vín er hollt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný þjónusta í Krónunni.

Næst þegar ég fer í Krónuna ætla ég að láta ná í verslunarstjórann og rétta honum innkaupalistann minn og biðja hann um að finna fyrir mig ódýrustu vörurnar.

Eysteinn Helgason sagði frá þessum skemmtilega möguleika í Kastljósi í kvöld.

 


HÚRRA VALGERÐUR. Eins og talað frá mínu hjarta.

Auðvitað. Ef þingmennirnir treysta sér ekki til að búa við þau kjör sem okkur hinum eru ætluð ættu þeir bara að finna sér léttari störf.

Meðflutningsmenn eru : Katrín Júlíusdóttir, Ellert B.  Schram,  Gunnar Svavarsson og Róbert Marshall

Svo er bara að sjá hvaða hljómgrunn þetta fær hjá hinum, það verður spennandi. 

 

 

 

 


mbl.is Vilja afnema sérstök lífeyrisréttindi þingmanna og dómara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Amma, amma er ég nokkuð einbirni ?

Ég var um það bil fimm ára og hljóp grátandi inn til ömmu. Stór stelpa hafði beygt sig niður að mér og sagt alvarleg á svip "þú ert einbirni".  Mér fannst orðið bæði vont og ljótt. Ég og mamma áttum heima hjá ömmu og afa, enginn pabbi og ég hafði þá þegar heyrt ýmislegt miður fallegt um tilurð mína.

Kannski var það þess vegna sem mér fannst þetta orð svona vont. Enn þann dag í dag hef ég ekki tekið þetta orð í sátt.

Þetta er ein þeirra minninga sem endurútgáfa Tíu lítilla negrastráka hefur vakið hjá mér. Ég fékk þessa bók að gjöf þegar ég var lítil og  hafði gaman af henni. Aldrei tengdi ég hrakfarir drengjanna litarhætti þeirra né heldur hafði bókin áhrif á álit mitt á svörtu  fólki yfirleitt. Á þeim tíma voru svertingjar sjaldséðir í Reykjavík og hafði ég aldrei séð slíkan með berum augum.

Grimms ævintýrin voru líka lesin fyrir mig á þessum árum og eins og allir vita er nú ekki allt fallegt sem þar er, til dæmis hvernig Hans og Gréta fóru með galdranornina. Vonda stjúpan í Mjallhvíti fékk á sig logandi járnskó og dansaði þar til hún drapst. 

Ég man að þegar ég var lítil þá fannst mér þessar sögur vera stórgóðar. Þær höfðu þann einfalda boðskap að það borgaði sig alltaf að vera góður og hinir vondu fengu makleg málagjöld.

Mér brá hins vegar og varð hálf illt þegar ég, ásamt bekkjarsystkinum var látin lesa Sögu handa börnum og Eldhús eftir máli, eftir Svövu Jakobsdóttur.

Mér brá líka þegar ég las Grimms ævintýrin fyrir mína syni. Mér fannst svo mikið ofbeldi í þeim að ég sá ástæðu til að ritskoða þau og fegra. Til dæmis lét ég Hans og Grétu villast í skóginum í staðinn fyrir að pabbinn styngi þau af. Vonda stjúpan var bara rekin að heiman og þar fram eftir götunum. 

Ég velti því fyrir mér hverju þessi viðkvæmni tengist, kannski eykst hún bara með aldrinum.


Er hægt að vera sjálfhverfari?

Birki Jóni Jónssyni hefur verið tíðrætt um eigin heilsu á bloggi sínu eftir að hann sjálfur greindist með sykursýki 1.

Þar talar hann meðal annars um það hvað heilsan sé dýrmæt ,"Ekkert er dýrmætara en heilsan" segir hann á einum stað og í framhaldi af því  talar  hann um nauðsyn þess að halda í Íslensku mjólkina, það sé svo mikilvægt fyrir heilsu Íslensku þjóðarinnar varðandi sykursýki.

Á sama tíma er hann meðflutningsmaður á frumvarpi, þar sem lagt er til að koma áfengi í matvöruverslanir.

Það er vitað að sú aðgerð myndi hafa veruleg áhrif til hins verra á heilsufar þjóðarinnar allrar, líkamlega, andlega og eins myndi hafa neikvæð félagsleg áhrif, sérstaklega á börn.

Er Birki bara umhugað um það sem hrjáir hann og hans fjölskyldu ? 

 


Réttur hverra?

Á fréttavef vísis  er sagt frá því að Íslenskar lesbíur geta fengið nafnlaust gjafasæði frá dönskum sæðisbanka.

Lesbíur hafa talið það sinn rétt að fá að ganga með og eignast börn. 

Það getur ekki verið réttur nokkurrar manneskju að eignast börn.

Mér finnst það hins vegar vera skýlaus réttur barna að vel sé að þeim búið, komi þau á annað borð í heiminn.

Það er líka jafnsjálfsagður réttur barna að þekkja bæði föður sinn og móður.

Eins er það réttur þeirra að umgangast bæði föður sinn og móður sé þess nokkur kostur.

Í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er þetta eitt af höfuðatriðum sáttmálans.

Hvernig stendur á því að þessi réttur barnanna er hundsaður ?

Við þekkjum ótal dæmi um að fólk sem af einhverjum ástæðum veit ekki hver faðir þess er, eyðir ómældum tíma og peningum til að finna hann. Nærtækast er að nefna börn Bandarískra hermanna. Þetta fólk segir frá því að því finnist mikið vanta þegar það þekkir ekki uppruna sinn og skiptir þá engu hvort það hafi átt góða æsku eða ekki. Þetta virðist vera þeim mikið mál.

Hver vegna í ósköpunum erum við að stuðla að því, með nafnlausu gjafasæði, að fjölga svona málum?

Hafa þessar ágætu konur sem þrá svona heitt að eignast börn ekki leitt hugann að þessu.?

Hvers vegna kjósa þær að svipta börnin sín þessum sjálfsagða rétti þeirra ? 

Hvers vegna er þetta ekki gert fyrir opnum tjöldum?

Fólk á rétt á því að vita uppruna sinn það á ekki að vera hægt að ganga fram hjá því.

 Áður birt í nóv. 2007.


HVERS VEGNA EKKI ÓLAFUR F ?

Margir hafa spurt, og þeirra á meðal Margrét Sverrisdóttir hvers vegna Frjálslyndir ályktuðu bara gegn henni en ekki gegn Ólafi F Magnússyni, sem þó gekk úr flokknum eins og Margrét.

Því er til að svara að Margrét hefur ekki látið neitt tækifæri ónotað til að hreyta ónotum í fyrrum flokksfélaga sína sem þó studdu hana með ráðum og dáð á sínum tíma.

Í Frjálslynda flokknum er fjöldinn allur af fólki sem studdi Margréti og lagði á sig ómælda vinnu til að koma henni á þann stað sem hún er nú. Því fólki er nú  nóg boðið.

Svo er Ólafur  veikur og okkur þykir það einfaldlega rétt að láta hann í friði þó svo að Margréti finnist það ekki.


Siðferði

mynd

Stjórn Landsambands kvenna í Frjálslynda flokknum samþykkti í kvöld ályktun þar sem seta Margrétar Sverrisdóttur í borgarstjórn er hörmuð. Stjórnin segist í ályktuninni lýsa vantrausti á Margréti.

Ályktun LKF:
Stjórn Landsambands kvenna í Frjálslynda flokknum, harmar að sundrung skyldi verða í Frjálslynda flokknum s.l. vetur þegar Margrét Sverrisdóttir og nokkrir stuðningsmenn hennar kusu að segja sig úr Frjálslynda flokknum eftir að hafa tapað í varaformannskjöri fyrir Magnúsi Þór Hafsteinssyni.

Landssamband kvenna í Frjálslynda flokknum bendir á að Margrét Sverrisdóttir benti réttilega á hversu óeðlilegt það er að kjörinn fulltrúi stjórnmálaflokks skipti um flokk á miðju kjörtímabili og sitji áfram í þeirri trúnaðarstöðu sem hann var kosinn til upphaflega. Þegar Gunnar Örlygsson sem kosinn var á alþingi fyrir Frjálslynda flokkinn gekk í Sjálfstæðisflokkinn lýsti Margrét Sverrisdóttir því yfir að þetta væri bæði ólöglegt og ósiðlegt að Gunnar skyldi ætla að halda þingsætinu sem með réttu tilheyrði Frjálslynda flokknum. Hún kærði athæfi Gunnars síðan til umboðsmanns Alþingis.

Nú er Margrét Sverrisdóttir í sömu stöðu og situr áfram í sæti sem tilheyrir Frjálslynda flokknum í borgarstjórn Reykjavíkur þó hún hafi sagt sig úr flokknum. Það er sama siðleysið og hjá Gunnari Örlygssyni á sínum tíma.

Landssamband kvenna í Frjálslynda flokknum lýsir vantrausti á Margréti Sverrisdóttur og öll vinnubrögð hennar þar sem hún gékk úr flokknum en situr samt í umboði hans
í borgarstjórn. Margrét var ekki kosin persónukjöri heldur voru það atkvæði flokksins, sem veittu henni setu sem varamanni í nafni Frjálslynda flokksins.

Landssamband kvenna í Frjálslynda flokknum skorar á Margréti Sverrisdóttur að fylgja því siðferði sem hún áður boðaði að ætti að gilda í stjórnmálum og segja af sér sem varaborgarfulltrúi þannig að raunverulegur fulltrúi Frjálslynda flokksins setjist í borgarstjórn í stað þeirra sem farnir eru úr flokknum.

Borgarstjórnarflokkur Frjálslyndra og óháðra er óviðkomandi Frjálslynda flokknum meðan fulltrúar annarra flokka en Frjálslynda flokksins sitja sem fulltrúar flokksins á fölskum forsendum. Framkoma Margrétar Sverrisdóttur og tækifærismennska vegna eigin hagsmunagæslu er ekki traustvekjandi fyrir ungar konur sem vilja taka þátt í pólitík og ekki hvetjandi fyrir konur að horfa á vinnubrögð hennar að sitja umboðslaus í borgarstjórn. Margrét Sverrisdóttir situr ekki fyrir og er á engan hátt tengd Frjálslynda flokknum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband