Amma, amma er ég nokkuð einbirni ?

Ég var um það bil fimm ára og hljóp grátandi inn til ömmu. Stór stelpa hafði beygt sig niður að mér og sagt alvarleg á svip "þú ert einbirni".  Mér fannst orðið bæði vont og ljótt. Ég og mamma áttum heima hjá ömmu og afa, enginn pabbi og ég hafði þá þegar heyrt ýmislegt miður fallegt um tilurð mína.

Kannski var það þess vegna sem mér fannst þetta orð svona vont. Enn þann dag í dag hef ég ekki tekið þetta orð í sátt.

Þetta er ein þeirra minninga sem endurútgáfa Tíu lítilla negrastráka hefur vakið hjá mér. Ég fékk þessa bók að gjöf þegar ég var lítil og  hafði gaman af henni. Aldrei tengdi ég hrakfarir drengjanna litarhætti þeirra né heldur hafði bókin áhrif á álit mitt á svörtu  fólki yfirleitt. Á þeim tíma voru svertingjar sjaldséðir í Reykjavík og hafði ég aldrei séð slíkan með berum augum.

Grimms ævintýrin voru líka lesin fyrir mig á þessum árum og eins og allir vita er nú ekki allt fallegt sem þar er, til dæmis hvernig Hans og Gréta fóru með galdranornina. Vonda stjúpan í Mjallhvíti fékk á sig logandi járnskó og dansaði þar til hún drapst. 

Ég man að þegar ég var lítil þá fannst mér þessar sögur vera stórgóðar. Þær höfðu þann einfalda boðskap að það borgaði sig alltaf að vera góður og hinir vondu fengu makleg málagjöld.

Mér brá hins vegar og varð hálf illt þegar ég, ásamt bekkjarsystkinum var látin lesa Sögu handa börnum og Eldhús eftir máli, eftir Svövu Jakobsdóttur.

Mér brá líka þegar ég las Grimms ævintýrin fyrir mína syni. Mér fannst svo mikið ofbeldi í þeim að ég sá ástæðu til að ritskoða þau og fegra. Til dæmis lét ég Hans og Grétu villast í skóginum í staðinn fyrir að pabbinn styngi þau af. Vonda stjúpan var bara rekin að heiman og þar fram eftir götunum. 

Ég velti því fyrir mér hverju þessi viðkvæmni tengist, kannski eykst hún bara með aldrinum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fishandchips

Held reyndar að börnin okkar séu ekki mikið að pæla í rasisma, held að þessar sögur gefi okkur foreldrunum tækifæri á að ræða þessi mál við ungana okkar. Það sem styður einelti og rasisma er fáfræði.

Fishandchips, 31.10.2007 kl. 01:15

2 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Ég er búin að gera tvær færslur þar sem ég segi mitt álit á endurútgáfu Negrastrákanna, held ég sé ekkert að rausa meira um það hér.

Í bókinni minni um Mjallhvíti dansaði vonda stjúpan í glóandi járnskóm í lokin. Mamma las bókina fyrir mig og sleppti því að lesa þetta og þreif af mér bókina þegar ég vildi fá skýringu á myndinni sem fylgdi. Það var ekki fyrr en ég var búin að læra að lesa sem ég fékk hana. Mér hefur alltaf fundist það fallegt seinna að mamma skyldi gera þetta, ég hefði ekki viljað heyra þessa lýsingu þegar hún las söguna fyrst.

Það má segja að bandaríski klámiðnaðurinn sé búinn að gjörnýta sér söguna af Mjallhvíti og dvergunum sjö - það er kannski þess vegna sem bandarísku siðgæðisnefndinni þótti ástæða til að banna hana á bókasöfnum? - þó ég eigi frekar von á að sú framleiðsla hafi verið ætluð "adults" og "X-rated" og hafi þar með ekki komist á hillur í barnadeildinni!? .... Klikkað lið...

Greta Björg Úlfsdóttir, 31.10.2007 kl. 02:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband