Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Mannlegi þátturinn.

Frágangur við Reykjanesbrautina er til háborinnar skammar og fáránlegt að menn hafi komist upp með þetta í allan þennan tíma.

Það er líka sorglegt að einhver "frægur" þurfi að lenda í slysi til að eitthvað sé gert.

Án þess að ég eigi sérstaklega við þetta slys enda þekki ég ekki málavöxtu, þá er það staðreynd að langflest bílslys má rekja til þess að bílstjórar haga ekki akstri eftir aðstæðum. 060531_bobsled_vmed_11a.widec

Það er alveg sama hversu öruggir vegirnir verða, fólk þarf að átta sig á því að akstur er dauðans alvara og öryggið verður alltaf undir ökumanni komið. Þegar búið er að tvöfalda vegina er meiri hætta á of miklum hraða.

Vegirnir verða auðvitað aldrei eins og bob sleðabrautir.

Fólk þarf líka að hafa það algjörlega á hreinu að það er ekkert einkamál hvernig það keyrir, eitt andartaks gáleysi, eitt ÚPS og fólk getur örkumlast fyrir lífstíð eða dáið og þar með er líf fjölda fólks komið á hvolf.

 

 


mbl.is Reiður út í þá sem bera ábyrgð á Reykjanesbraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kennitöluofnotkun

Alveg er það stórmerkilegt hvaða fyrirtæki biðja mann um kennitölu.

Þetta fer nett í taugarnar á mér. Nýjasta dæmið er fatahreinsun. Ég fór með buxur í hreinsun og stúlkan voða elskuleg, sagði eins og ekkert væri sjálfsagðara : Kennitala ?? og beið eftir svari.

Ég spurði þá,  hvað er ekki nóg fyrir þig að fá símanúmer ?

Nei, þetta er nýtt, nú notum við kennitölu, er það ekki í lagi ? 

Nei sagði ég, mér finnst það ekki í lagi.

Mér finnst hreint ekki í lagi að gefa upp  kennitölu í tíma og ótíma. Ég held meira að segja að þetta sé sér Íslenskt fyrirbæri. 

Bankar heimta auðvitað alltaf kennitölu líka þegar þeir þurfa þær ekki. 

Eitt sinn mætti ég í bankann með gíróseðil og pening. Ég ætlaði að borga fasteignagjöldin fyrir tengdamóður mína og eins og hennar er siður lét hún mig fá peninga. Ég rétti fram seðilinn og peningana og þá vildi gjaldkerinn líka fá kennitöluna mína, sagði að það væri alveg bráðnauðsynlegt.

Ég hélt nú ekki, upp hófst þvarg og pex. Ég fjandanum þrjóskari, lét mig ekki  þrátt fyrir að gjaldkerinn segði að þetta væri mér fyrir bestu, því ef hann fengi kennitöluna mína þá fengi ég leiðréttingu ef honum yrðu á mistök. Glætan að það hefði verið hægt að klúðra þessu.

Að lokum spurði hann með þjósti hvort ég væri hlynnt peningaþvætti.

Ætli þessi aðferð til peningaþvættis sé mikið notuð ? þessi að borga fasteignagjöld eldri borgara með reiðufé ? 

 


Hann er ekki sonur minn.

Ég fór í Europris úti á Granda í dag. Þar var strákur ca. 14 ára að afgreiða. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi nema vegna þess að þarna er selt tóbak. Eins og flestum er kunnugt er ólöglegt að láta krakka yngri en 18 ára afgreiða tóbak.

Ég benti verslunarstjóranum sem er að ég held pólskur, á þetta en þá svaraði hann : "Hann er ekki sonur minn" Þegar ég sagði að þetta væru lög þá yppti hann bara öxlum.

Hvers vegna komast kaupmenn upp með þetta endalaust ? Eigum við svo að trúa því að þeim sé treystandi til að fara eitthvað betur með áfengið ? 

Best að bæta því við að lögreglan sýnir svona málum takmarkaðan áhuga. Í fyrra vissi ég af því að áttundubekkingar sem voru að vinna í Nóatúni við Hringbraut, voru að selja jafnöldrum sínum sígarettur.

Ég byrjaði auðvitað á því að tala við verslunarstjórann, hann var átakanlega ungur en ætlaði samt að  reyna að gera sitt. Næst hringdi ég í lögregluna og þar var mér tekið heldur fálega það er líka svo voðalega mikið að gera hjá þeim. Þar sem ég var nú ekki alveg á því að láta vísa mér á bug með erindið var mér bent á einhverja deild sem ég man ómögulega hvað heitir, sértæk eitthvað, og þar var enginn sérstakur áhugi heldur.  Þeir ætluðu jú að "kíkja á þetta"

Þá talaði ég við Lýðheilsustöð en þar innanborðs er apparat sem heitir  tóbaksvarnir sem hefur að hluta tekið yfir það sem hét tóbaksvarnaráð  þar fannst mér ég hreinlega skynja uppgjöf "það er svo voðalega lítið hægt að gera".

Ég sem hélt að hægt væri að svipta verslanir leyfi til tóbakssölu. 

Að lokum hafði ég svo samband við aðalstöðvar Kaupáss sem reka búðirnar og þeir ætluðu að taka á málinu en bættu því við að það væri ógurlega erfitt þar sem starfsfólkið væri svo ungt. 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband