Tvöföldun eða 2+1 ?

Kröfur um að tvöfalda sem flesta vegi hefur verið hávær uppá síðkastið. Talað er um að tvöföldun sé eina lausnin allt annað hljóti að vera bráðabirgðalausn og okkur ekki samboðið.

Þessu er ég algjörlega ósammála. Nú er það svo að þó svo að sumir virðist halda að við eigum endalaust af peningum þá er það bara staðreynd að svo er ekki.

Þess vegna hljótum við að þurfa að forgangsraða, það þýðir einfaldlega að við getum ekki gert allt sem við viljum, hvorki í þessum málaflokki né öðrum þar sem við erum bundin af kostnaði.

Það er heldur ekki svo að tvöföldun sé skynsamleg hvar sem er þó svo peningarnir væru til. Í fyrsta lagi tekur það lengri tíma að tvöfalda og svo þarf að vera ákveðinn umferðarþungi til þess að vegurinn nýtist ef hann gerir það ekki þá myndast aftur slysahætta en af öðrum toga.

Í vetur snjóaði meira en oft áður. Á vegi eins og Reykjanesbrautinni hleðst snjór síður upp en víða annarstaðar einfaldlega vegna umferðarinnar. Að ryðja tvöfalda braut er auðvitað tvöföld vinna á við að ryðja einfalda og það er meiri hætta á því að það verði þæfingur á veginum. Þegar vegur er tvöfaldur og umferð ekki nægilega mikil, slitnar vegurinn ójafnt og það útaf fyrir sig getur líka skapað vandamál.

Það er merkilegt að þegar maður hefur nefnt þessa lausn 1+2 á Vesturlandsvegi og Suðurlandsvegi þá verða sumir foxillir og spyrja hvort maður vilji ekki bjarga mannslífum.

Jú það er einmitt það sem ég vil, ég vil meira að segja bjarga fleiri mannslífum því ef við nýttum þessa leið 2+1 víðar þá gætum við bæði lagt fleiri slíkar brautir og það tæki styttri tíma og það er hreint ekki svo lítils virði.

Svíar hafa notast við 2+1 í áratugi með góðum árangri og það kom líka í ljós þegar byrjað var á Reykjanesbrautinni, þá var hún í raun 2+1 á köflum til að byrja með og það gerði helling, þá fækkaði slysum. Opinberar umferðartölur sýna það líka að alls staðar þar sem þessi háttur er hafður á er öryggið mjög svipað og ef vegurinn er tvöfaldur. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband