Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007
Börn og búðir
Mánudagur, 17. desember 2007
Flestum börnum finnst bæði erfitt og hundleiðinlegt að fara í búðir. Samt virðast sumir foreldrar líta á búðarferðir sem fjölskylduskemmtun.
Ef þið eruð tvö með börnin þá er best að skipta með sér verkum þ.e. annað ykkar verður heima með börnin eða gerir eitthvað skemmtilegt á meðan hitt fer í búðir.
Ef þið neyðist til að fara með barnið eða börnin í búðir þá eru hérna nokkur atriði sem vert er að hafa í huga.
Gefið barninu að borða og drekka áður. Svangt og þyrst fólk verður alltaf ergilegt sama á hvaða aldri það er.
Hafið ferðina eins hnitmiðaða og þið getið. Börnum finnst búðarferðin jafnvel enn verri ef ráfað er stefnulaust úr einni búð í aðra.
Ræðið við barnið/börnin áður en þið leggið af stað, segðu í hvaða búðir þið ætlið að fara, hversu margar og hvað þið ætlið að gera. þau skilja meira en maður heldur. Leyfið börnunum að skoða leikföng eða það sem þau hafa áhuga á.
Ekki reiðast þegar barnið sér eitthvað sem því list vel á og langar í. Það ekki nema eðlilegt að þau rekist á ýmislegt sem freistar.
Gerið hlé á búðarrápi til að fá ykkur hressingu.
Ef barnið fer að gráta í búðinni, í guðs bænum huggið það, ekki láta það bara gráta. Það er ömurlegt að sjá fólk í búðarrápi með vansæl og grátandi börn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Kynþáttahatur eða bara hrein og tær mannvonska ?
Mánudagur, 10. desember 2007
Það getur oft verið erfitt að greina af hvaða rótum illgirni fólks í garð náungans er sprottin. Ég man eftir því þegar ég var lítil að þá var einni stelpu sem bjó í næstu blokk oft strítt illilega. Af einhverjum ástæðum hafði sú saga komist á kreik að mamma hennar notaði bleyju. Krakkar gengu á eftir henni og öskruðu "pissudúkka, það er pissufýla af þér"
Þessi stelpa var Íslensk og hvít eins og hvítir gerast hvítastir. Ég er ekki í nokkrum vafa um að ef hún hefði verið útlendingur eða öðruvísi á litinn þá hefði þessi illkvittni verið flokkuð undir kynþáttahatur eða fordóma.
Við þekkjum öll mýmörg dæmi um svona hluti, því miður. Til dæmis hafa rauðhærðir verið uppnefndir svo lengi sem elstu menn muna og krakkar grípa bara til þess sem "hendi er næst". Það getur verið fátækt, drykkjuskapur foreldra samanber "rauðskalli brennivínsson" lesblinda, smámælgi, föt sem falla ekki í kramið og svona mætti lengi telja.
Þetta er einfaldlega bara hrein illkvittni og mannvonska.
Mér finnst við verða að gæta þess að falla ekki alltaf í þennan pytt að halda að andstyggilegheit sem við notum hvert gegn öðru sé eitthvað annað en mannvonska.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)