Færsluflokkur: Neytendamál
Tími staðgreiðsluafsláttanna runninn upp - aftur.
Fimmtudagur, 3. júlí 2008
Núna þegar verðbólgan virðist vera að ná sér á strik ættu kaupmenn að gefa staðgreiðsluafslátt. Þegar verðbólgan er lítil þá skiptir það ekki öllu máli fyrir þá að fá greiðsluna strax, því peningarnir eru jafnmikils virði í dag og eftir sex vikur, en það er um það bil sá tími sem það getur tekið kreditkortagreiðsluna að skila sér.
Í verðbólgutíð og krónan er í frjálsu falli er allt annað uppi á teningnum. Þá rýrna peningarnir hratt þannig að kaupmenn ættu að hvetja fólk til að staðgreiða með því að gefa staðgreiðsluafslátt.
Ótrúleg hækkun, pizzuostur upp um 32% og poppmais um 86%
Laugardagur, 17. maí 2008
Ég reyni að fylgjast vel með matvöruverði og alveg sérstaklega undanfarið. Fyrir mig er það ekkert óskaplega erfitt því ég kaupi svo mikið það sama og að mestu leiti í sömu verslunum.
Eitt af því sem ég kaupi reglulega er rifinn pizzuostur frá Osta & Smjörsölunni 200 gr. pakkningu.
Í apríl kostaði pokinn 169 kr. en í gær 223 kr. hækkun 32%
á sama tíma fór mjólkin úr 73 kr. í 84 hækkun 15%
Poppmaís kaupi ég líka reglulega og í apríl kostaði 907 gr. poki 69 kr. en í dag 129 kr. þ.e. hækkun 86% maísinn kemur frá Bandaríkjunum og þar sem dollarinn hefur ekki hækkað hlutfallslega jafn mikið og evra þá er þessi hækkun algjörlega útúr korti.
Flott hjá Íbúðalánasjóði.
Mánudagur, 21. apríl 2008
Fyrir fáeinum árum var það eindregin skoðun mín að leggja ætti Íbúðalánasjóð niður, bankarnir gætu svo vel sinnt hans hlutverki. Annað hefur svo komið á daginn þannig að ég hef skipt um skoðun.
Bankarnir voru ekki lengi að sýna það og sanna að þeim er ekki treystandi, alla vega ekki ennþá hvað sem síðar verður.
Ranglega hefur því verið haldið fram að hækkað lánshlutfall sjóðsins hafi valdið allri þessari þenslu. Menn "gleyma" alltaf að taka það fram að Íbúðalánasjóður miðar alltaf við brunabótamat eða fasteignamat sem er í langflestum tilfellum mun lægra en söluverð eignanna.
Flott hjá þeim að lækka vextina á þessum síðustu og verstu tímum.