Að gráta sigurinn.
Sunnudagur, 24. ágúst 2008
Þegar ég horfði á verðlaunaafhendinguna í morgun, fannst mér skondið hvað Spánverjarnir voru rosalega kátir. Þeir sem fengu "bara" brons hugsaði ég með tárin í augunum. Ég, eins og svo margir aðrir var farin að gera mér raunverulegar vonir um gull. Málið var auðvitað að Spánverjarnir kepptu í morgun um bronsið og unnu. Við kepptum um gullið og töpuðum.
Samt vorum við auðvitað búin að vinna helling. Við unnum í rauninni á föstudaginn.
Það sem gerði mig svona hálf sorgmædda með silfrið var að mér fannst liðið aldrei ná sér almennilega á strik í leiknum gegn Frökkum. Sá töfraljómi sem hefur verið yfir liðinu lét ekki sjá sig í morgun.
Ég sem fylgist alla jafna ekki með íþróttum hef fylgst vel með strákunum okkar í þetta skiptið og það hefur verið beinlínis ævintýralegt. Að sjá hverja sóknina á fætur annarri ganga upp og fylgjast með leikgleðinni og sjá þann neista sem hefur einkennt hvern og einn leikmann hefur verið hreint út sagt frábært. Þetta vantaði í leiknum í morgun.
Ég hef verið að reyna að útskýra fyrir sumum vinum mínum sem engan áhuga hafa, láta sér fátt um finnast um "einhvern boltaleik" að þetta snúist ekki um einhvern kjánalegan leik.
Þessi keppni snýst um svo miklu, miklu meira. Hún snýst um okkur sem þjóð, hún snertir bókstaflega streng í hjartanu. Það er svo gott að finna að maður sé hluti af heild sem stefnir að sama markmiði og nær því.
Takk fyrir mig og til hamingju Ísland.
Íslendingar taka við silfrinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæl Þóra. Já þetta var magnað. Meiri veislan þessir Ólympíuleikar. Mér fannst við vinna okkar sigur á föstudaginn og bara formsatriði að klára þetta í morgunn. Frakkarnir eru alveg stórkostlegt lið en það eru okkar menn líka og hafa sannað það. Spánverjarnir máttu þakka fyrir að komast á pallinn og því var þeirra móment í dag. kveðja Kolla
Kolbrún Stefánsdóttir, 24.8.2008 kl. 23:24
Rétt hjá þér, þetta hefur þjappað þjóðinni verulega saman. Sjálf horfi ég sárasjaldan á boltaíþróttir eða aðra íþróttaviðburði.
Vel skrifað hjá þér.
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 25.8.2008 kl. 15:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.