"Fátt verðmætara en traust og trúverðugleiki"
Þriðjudagur, 17. júní 2008
Var á meðal þess sem Geir H. Haarde sagði í dag. Hann vísaði til alþjóðlegra fjármálamarkaða en þetta á við allsstaðar og á öllum sviðum.
Mér hefur einmitt helst þótt skorta á traust og trúverðugleika hans sjálfs og ríkistjórnarinnar, því miður.
Hann virðist ekki átta sig á því að fjöldi fólks situr heima hjá sér, með hnút í maganum yfir atburðum síðustu mánaða og sumir eru líka með uppsagnabréf í höndunum.
Margir hafa hagað sér óskynsamlega og látið glepjast af gylliboðum lánastofnana, sem vel að merkja voru óáreittar við þá iðju. Keypt sér allskonar dót á afborgunum, jeppa, fellihýsi og svoleiðis.
Þeim líður meinilla, ekki nóg með að lánin hafi snarhækkað, heldur hefur dótið snarlækkað í verði og er núna illseljanlegt ef ekki óseljanlegt með öllu.
Þeim sem hafa hagað sér skynsamlega, líður heldur ekki vel. Íbúðalánin hafa hækkað og þar með afborganirnar, matvörur hafa hækkað í verði sem og flestar aðrar vörur.
Fyrir stuttu síðan var Ingibjörg Sólrún spurð af fréttamanni hvað ríkisstjórnin hygðist gera. Hún var nú ekki á því að það þyrfti yfirleitt að gera eitthvað, "það er ekkert teljandi atvinnuleysi" sagði hún. Þá þegar var vitað að um fjöldauppsagnir yrði að ræða.
Það er rétt hjá Geir fátt er verðmætara en traust og trúverðugleiki í lífinu yfirleitt. Hvar værum við stödd ef þess nyti ekki við ?
En hvorugt ávinnst nema fólk sé heiðarlegt.
"Við verðum að laga okkur að breyttum aðstæðum"
Sagði hann líka.
Mér finnst það alltaf hljóma hjákátlega þegar fólk eins og hann, með allt sitt á þurru sama á hverju gengur, talar svona.
Honum hefði verið nær að koma fram, þegar ósköpin dundu yfir og stappa stálinu í fólk.
Það gerði hann ekki. Hann sagði fólki hins vegar að halda að sér höndum, stöðva framkvæmdir og hætta við íbúðarkaup.
Það var hreint ekki gáfulegt. Bara það eitt gæti orsakað kreppu. Gerir Geir sér ekki grein fyrir því að fjöldinn allur af fólki þarf að vinna fyrir sér, er ekki áskrifendur að laununum sínum heldur þarf að hafa fyrir framfærslu sinni ?
Fjöldinn allur á allt sitt undir því að selja öðrum vinnu sína og þjónustu og það að segja öllum að bara stoppa er fullkomið ábyrgðarleysi.
Við Íslendingar erum upp til hópa duglegt og kraftmikið fólk, sem vílar ekki fyrir sér að vinna mikið þegar á þarf að halda.
Við eigum líka skilið að eiga kraftmikinn og duglegan forsætisráðherra sem talar í okkur kjarkinn þegar gefur á bátinn og kemur fram með alvöru lausnir þegar þeirra er þörf.
Forsætisráðherra bjartsýnn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Er Geir ekki sjálfur að missa sjálfstraustið og kjarkinn en viðbrögð hans við eðlilegum spurningum fréttamannsins Sindra gefa til kynna að jafnvægið sé ekki til staðaðr?
Það var annars hálfgerður brandari að hlýða á manninn sem ferðast um á einkaþotum að tala til þjóðarinnar um sparnað.
Hvað höfðingjarnir hafast að, hinir halda þeim leyfist það.
Sigurjón Þórðarson, 18.6.2008 kl. 11:23
Það er einmitt það sem allar þjóðir vilja; Sterkan leiðtoga. Ísland á ekki slíkan.
Halla Rut , 25.6.2008 kl. 18:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.