Er útlenskur matur hættulegur ?
Þriðjudagur, 29. apríl 2008
Það er alveg makalaust að fylgjast með umræðum um innflutning á fersku kjöti.
Helstu rökin sem notuð eru gegn innflutningi á kjöti eru annars vegar að fólki stafi hætta af kjötinu vegna sýkinga eins og t.d. salmonellu og Campylobacter og hins vegar er því haldið fram að íslenskur bústofn, sem okkur hefur tekist að verja fyrir ýmsum hættulegum sjúkdómum, geti sýkst.
Gömul kona hringdi um daginn á útvarpsstöð og sagði að hún myndi aldrei kaupa útlenskt kjöt, jafnvel þó það væri mun ódýrara en það Íslenska vegna þess að það væri svo hættulegt.
Það er ótrúlegt að fullorðið fólk, þokkalega skynsamt, skuli halda því fram fullum fetum að útlenskt kjöt sé beinlínis hættulegt til manneldis. Hefur þetta fólk aldrei farið til útlanda ? Tekur það kannski með sér birgðir af mat ? Hefur það ekki tekið eftir því að það býr fólk í útlöndum og því fjölgar meira að segja ískyggilega hratt.
Hvað með allan þann útlenska mat sem fólk borðar dags daglega. Megnið af niðursuðuvöru er útlensk, kex og kökur allskonar, pakkamatur og svona mætti lengi telja.
Það er engu líkara en að það eigi að flytja inn kjöt af sjálfdauðum hræjum.
Það kjöt sem flutt verður inn er 1. flokks, unnið í 1. flokks sláturhúsum og kjötvinnslum. Heldur fólk að við hér á landi séum eina fólkið sem kunni að slátra og vinna kjöt. Hluti af þeim fjölmörgu reglum Evrópusambandsins sem við höfum "neyðst" til að taka upp eins og oft er sagt, hafa einmitt snúið að sláturhúsum.
Hvað með innflutt skepnufóður ? Er það ekki stórhættulegt ?
Íslenskum búpeningi stafar mun meiri hætta af ferðamönnum sem koma á stígvélunum sínum í fjós og klappa kúm heldur en af hráu kjöti sem kaupstaðafólkið kaupir sér í matinn.
Athugasemdir
Ögmundur Jónasson þingmaður Vinstri grænna fullyrti um daginn í útvarpsviðtali að ekki væri hægt að fá linsoðið egg á hóteli á meginlandi Evrópu!
Heimir Lárusson Fjeldsted, 29.4.2008 kl. 19:56
Nokkuð til í því, í Danmörku getur maður keypt geisluð egg, þau eru laus við salmonellu, hin sennilega ekki og því verður að harðsjóða þau.
Þóra Guðmundsdóttir, 29.4.2008 kl. 20:26
Mér hefur aðeins einu sinni orðið meint af mat á erlendri grund.
Mikið oftar hef ég veikst af skemmdum mat hér heima.
Þá var vatnið á Ísafirði frægt magakveisuvatn í mörg herrans ár.
Við höfum svo sem ekki ááúr háum söðli að detta.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 29.4.2008 kl. 20:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.