Útvarp Saga, skrítna útvarpsstöðin

Það er ekki ofsögum sagt að Útvarp Saga er skrítin útvarpsstöð. Það má segja að sá eini sem þar haldi uppi áhugaverðu efni sé Sigurður G. Tómasson. Sérstakleg þegar hann fær til sín hinn fjölfróða vin sinn, Guðmund Ólafsson.

Sjálfur er Sigurður fjölfróður mjög og á oft bágt með sig. Það getur verið pirrandi til lengdar hvað hann botnar oft setningar viðmælenda sinna, ótrúlega oft hefur hann bæði verið og gert það sem um er rætt.

Útvarpsstjórinn sjálfur, Arnþrúður Karlsdóttir, er svo kapítuli útaf fyrir sig.

Uppfull af réttlætiskennd fer hún oft mikinn og predikar heil ósköp. Stundum hefur hún heilmikið til síns máls og maður getur ekki annað en samsinnt henni, en allt of oft fer hún rangt með. Það er mjög alvarlegt. Sérstakleg þegar litið er til þess að hún á sér aðdáendahóp sem trúir hverju orði sem hún segir. Hversu stór hann er, er erfitt að segja, en hann er einhver. 

Það er þeim mun alvarlegra þar sem margt af því fólki sem dáir hana, segist ekki hlusta á nokkra aðra útvarpsstöð. 

Þegar hún fær mál á heilann (sem er alloft) er voðinn vís. Þá sést hún ekki fyrir og fer hamförum. 

Eitt af því alvarlegasta sem hún hefur tekið fyrir er að hún hefur ekki vílað fyrir sér að fullyrða að innflytjendur eiturlyfja hafi bæði lögreglu og dómstólana í vasanum og þess vegna sé innflutningur eiturlyfja jafn mikill og raun ber vitni. 

Mér finnst það háalvarlegt mál að kona í hennar stöðu skuli halda því fram að bæði lögregla og dómstólar séu handbendi eiturlyfjabaróna. Hún rökstyður það svo sem ekkert frekar en heldur því samt engu að síður fram. Hún fullyrti líka að fíkniefnaleitarhundum hefði verið fækkað fyrir tilstilli þessara innflytjenda. Sannleikurinn er hins vegar sá að hundunum var í raun fjölgað.

Ef hún aftur á móti hefur eitthvað haldbært, máli sínu til stuðnings, þá á hún að leggja það á borðið svo öllum megi vera það ljóst. 

Fleira er mjög sérstakt. Í aðra röndina klifar hún á því að vera engum háð en í hina er hún sífellt að biðja hlustendur um peninga. Það var hlálegt þegar kona nokkur hringdi inn og fór þess kurteislega á leit við Arnþrúði að endurflutningur væri með öðrum hætti. Arnþrúður brást hin versta við, sagði það vera sitt prívat mál hvernig hún hagaði hlutunum. Útvarpstöðin væri öllum ókeypis og þessi ágæta kona skyldi bara reyna að hafa áhrif á Ríkisútvarpið. Konugreyið vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið og kvaddi hið snarasta. Það sem Arnþrúður vissi ekki, var að þessi tiltekna kona hafði lagt reglulega inn á reikning stöðvarinnar.

Enn er ótalið það allra ógeðfelldasta við stöðina. Það er að seld eru veiðileyfi á auðtrúa hlustendur.

Í maí og í júní var vikulegur "heilsuþáttur" í umsjá Þuríðar Ottesen.  Þar  fór hún yfir eitt og annað heilsutengt og spjallaði við hlustendur. Í þáttinn hringdi fólk sem átti við allskyns kvilla að stríða og átti Þuríður ráð undir rifi hverju eða  öllu heldur í boxi hverju, rándýru. Hún gat leiðbeint fólki með inntöku á hinum ýmsu undraefnum sem hún hefur til sölu.

Aldrei kom það fram að Þuríður þessi er heildsali sem keypti tímann eins og hverja aðra auglýsingu. Auðtrúa hlustendur kokgleyptu "viskuna" eins og um heilagan sannleika væri að ræða.

Mér finnst það vera auðvirðulegast af öllu auvirðilegu að nýta sér  heilsubresti fólks til að hafa það að féþúfu. Hún sagði meira að segja í einum þættinum "fólk spilar í lottói og hvers vegna þá ekki að spila í lottói þar sem vinningurinn getur verið bætt líðan" þá var hún að vísa til þess að stundum virkuðu efnin og stundum ekki. Þau eru nefnilega rándýr.

Í sama dúr er svo hin makalausa Sirrý spákona. Annað eins bull og kemur frá henni er fáheyrt. Það sem hún stundar er í besta falli samkvæmisleikur. Það alvarlega er, er að hún nýtir sér  einfeldni og vandræði fólks til að hafa af því fé. Það er lúalegt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Loopman

Halló Þóra... skoðaðu þessar færslur mínar um útvarp sögu.

http://loopman.blog.is/blog/loopman/entry/362789/

http://loopman.blog.is/blog/loopman/entry/530689/

Og segðu svo hvað þér finnst hér 

Annars er ég sammála þessu... þetta er hættuleg stöð og fyllibyttan sem stýrir henni.. Kræst maður..

Loopman, 6.7.2008 kl. 01:03

2 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Leiðinlegt að heyra þetta. Hlusta sjálf nánast aldrei á útvarp, eiginlega því miður, en veit að þar má án efa heyra bæði góða og lélega hluti.

Guðríður Haraldsdóttir, 6.7.2008 kl. 01:26

3 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég get vel tekið undir það með þér að Útvarp Saga sé skrítin en hún er fyrst og fremst skemmtileg og áhugaverð útvarpsstöð, sem almenningur hefur gaman af að hlusta á. Kannski er það helsta ástæða þess að hún er svona skrítin?  Allir hafa skoðanir á umhverfi sínu Arnþrúður er engin undantekning á þeirri reglu, þvert á móti hefur hún  oft sterkar skoðanir en það heldur ekki vöku fyrir henni þó aðrir hafi jafn sterkar skoðanir sem ganga í gagnstæða átt.  Ég hef þekkt Arnþrúði lengi af góðu einu. Hitt er annað mál að eina leiðin til að gera ekkert sem einhverjum gæti mislíkað er að gera ekkert.  Arnþrúður Karlsdóttir er ekki þannig kona.

Sigurður Þórðarson, 10.7.2008 kl. 13:49

4 Smámynd: Jón Magnússon

Mér finnst þetta ekki maklegur palladómur um útvarpsstöð eins og Útvarp Sögu. Arnþrúður Karlsdóttir hefur sýnt frábæran dugnað við rekstur stöðvarinnar. Það er erfitt að standa dag eftir dag og svara fyrirspurnum og tjá sig um málefni líðandi stundar og af sjálfu leiðir að skoðanir viðkomandi koma þar fram. 

Mér finnst slæmt að þú skulir ekki telja okkur flokksbræðu þína mig, Eirík Stefánsson og Grétar Mar þess verða að á okkur sé hlustað.

Mér hefur fundist Útvarp Saga vera skemmtileg og oft hressileg stöð. Ég tek undir með þætti Sigurðar G. Tómassonar og hinn mæta viðmælanda hans Guðmund Ólafsson það er stórkostlega skemmtilegt útvarpsefni.  Annað í umfjölluninni finnst mér ekki eiga rétt á sér.

Jón Magnússon, 10.7.2008 kl. 21:08

5 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Þóra ! Ég er svo voðalega ánægð með gömlu gufuna. Þegar ég opna fyrir ljósvakamiðil hlusta ég á Rás 1. Ég verð sjaldan pirruð á þeirri stöð. Nú ef það er eitthvað sem ég vill ekki hlusta á þá bara sný ég takkanum á útvarpinu mínu og fæ svo stórfenglega þögn.

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 11.7.2008 kl. 00:37

6 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Sæl öll og takk fyrir innlitið.

Jón, ég trúi því ekki á þig, neytendafrömuðinn sjálfan, að sjá ekkert athugavert við framsetninguna á auglýsingaþáttunum. Það væri mun betra ef "heilsuþátturinn" væri bara kynntur á réttum forsendum. Þá væri bara sagt að eigandi þessa fyrirtækis myndi kynna sínar vörur.

Varðandi ykkur flokksbræður mína þá er pistlatíminn akkúrat á þeim tíma sem ég fer í mat eins og svo margt annað vinnandi fólk. Þið getið svo sem verið ágætir.

Eftir stendur að Arnþrúður fullyrðir aftur og aftur að ástæða þess að Guðmundur í Byrginu hafi verið "tekinn fyrir" sé sú að hann hafi ætlað að koma upp um einhverja háttsetta sem standa í innflutningi á eiturlyfjum. Það er mjög alvarlegt að skrökva slíku og enn alvarlegra ef satt er.

Þóra Guðmundsdóttir, 11.7.2008 kl. 19:36

7 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Guðrún, ég tek undir með þér að Rás eitt er allra best og ef ég þyrfti að velja mér eina útvarpsstöð yrði hún fyrir valinu. Ég hlusta mikið á hana. En ég er haldin einhverri undarlegri áráttu að hlusta á Útvarp Sögu (ég er jú í þannig vinnu að ég get hlustað mjög mikið á úrvarp) þrátt fyrir hvað margt þar fer í taugarnar á mér. Þetta hlýtur að vera einhverskonar masókismi .

Þóra Guðmundsdóttir, 11.7.2008 kl. 19:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband