Miðbær Reykjavíkur

Ástandinu í miðbænum á kvöldin um helgar má alveg líkja við stríðsástand og löngu tímabært að taka í taumana. Umburðarlyndi almennings og yfirvalda hefur í rauninni verið stórfurðulegt. Eins og að það sé sjálfsagt að um hverja helgi sleppi fjöldi fólks svo fram af sér beislinu að ætla mætti að hver sé að verða síðastur að fríka út,  því heimsendir sé á morgun.

Svo finnst sumum bara í lagi að létta á sér hvar svo sem þeir eru staddir þá stundina, vegna þess að þeir eigi ekki annarra kosta völ.

Þeir velja sér stað til að halda útihátíð, eins og götur borgarinnar án þess að þar sé nokkur aðstaða til slíkra hluta í stað þess að  fara hreinlega á skemmtistaði þar sem reiknað er með fólki og tilheyrandi útbúnaður er til staðar eins og t.d. salerni. 

Það á  ekki að vera sjálfsagt að fólk fari á hvínandi fyllerí og alls ekki um hverja helgi. Það á heldur ekki að vera sjálfsagt að drukkið fólk geti bara hagað sér eins og því sýnist og segja svo bara : hvað  er þetta ég var bara full(ur) og þar með sé hann bara stikkfrí.

Sumum finnst bara í lagi að láta mannasiði lönd og leið þegar þeir detta í það en þannig á það alls ekki að vera.

Ég held til þess að breyta þessu þá þurfum við öll að standa saman.  Þetta er ekki eitthvað sem lögreglan ein ræður við. Hér þarf hreinlega hugarfarsbreytingu. Við þurfum að vera sammála um að svona viljum við ekki hafa þetta og hver og einn þarf að líta í eigin barm og laga sig og sína hegðan.

 

 


mbl.is Hiti í gestum miðborgarþings í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Jóhann Guðmundsson

Hvaða stríðsástand er þetta sem allir tala um? Ég hef skemmt mér töluvert í bænum án þess að verða var við það. Og af hverju er það ekki sjálfsagt að fólk fari á hvínandi fyllerí. Sjálfur vel ég ekki að gera það en ég dæmi ekki fólk sem gerir slíkt. Hver ert þú eða nokkur annar að segja fólki hvernig það á að hegða sér? Ég er orðinn alveg óstjórnlega þreyttur á því hvað íslendingar eru æstir í það að láta lögin stjórna sér. Og hvað forsjárhyggjan er á góðri leið með að svipta okkur frelsi því sem við eigum að fæðast með.

Björn Jóhann Guðmundsson, 17.9.2007 kl. 22:08

2 Smámynd: Haukur Viðar

Af hverju á ekki að vera sjálfsagt að fólk fari á hvínandi fyllerí um hverja helgi? Ef ég væri þannig þenkjandi þá ætti ég að mega það, og allra síst einhver löggimann að banna mér það. Ég er sammála því að fólk mætti bæta hegðun sína og umgengni, en mér finnst frekar vafasamt ef fólk úti í bæ ætlar að fara að stjórna því hvernig eða hvenær annað fólk neytir áfengis.

Haukur Viðar, 17.9.2007 kl. 23:30

3 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Mér finnst það alls ekki eðlileg hegðun að drekka sig blindfullann hverja helgi. Það hlýtur eitthvað að vera að hjá þeim sem sækjast eftir því. Það er svo líka kapítuli útaf fyrir sig að fólk skuli ganga öskrandi um götur borgarinnar hendandi rusli og gera þarfir sínar þar sem það er statt.

Við, sem fólk útí bæ getum alveg gert þær kröfur til samborgara okkar að þeir hagi sér þokkalega á meðan þeir eru innan um annað fólk og á almannafæri. Hvað þeir gera svo heima hjá sér eða einhverstaðar í einrúmi er svo þeirra mál. 

Þóra Guðmundsdóttir, 17.9.2007 kl. 23:56

4 Smámynd: Daníel Freyr Gústafsson

Sæl Þóra.

Ég gæti hreinlega ekki verið meira ósammála. Ég viðukenni drykkju mína, og mér finnst það fáránlegt að þú út af því teljir vera "eitthvað að mér". Það er einu sinni drykkjumenning á Íslandi, eins og alls staðar annarsstaðar í heiminum, og ættum við að lifa eftir því í staðinn fyrir að forðast það. Þetta er ein mesta skerðing á frelsi einstaklingsins sem ég hef frétt af lengi, jaðrar jafnvel við fasisma. Málið er að þegar eitthvað virðist vera að fara út úr böndunum er eitthvað svo rökrétt að herða á öllu og setja alla í "skammarkrókinn". Ég nota orðið "virðist" af því að þetta er ekki að fara út úr böndunum. Þetta er sett þannig fram og einmitt þess vegna verður fólk sem fer ekki niður í bæ um helgar svona hrætt við þetta.

Af hverju ekki koma með aðrar lausnir, eins og til dæmis að fjölga almenningsklósettum úr einu yfir í fleiri? Eða auka athygli á grófum brotum? Í staðin fyrir að lögreglan komist ekki á staðinn til að hindra slagsmál af því að hún er að sekta mann fyrir að henda kókdós.

Og svo er málið líka að það er ekki mál hvers og eins hvað maður gerir heima hjá sér. Þar eru nágrannar og eru þetta mest af öllu fjölskylduhverfi. Ef á að taka tillit til einhverra þá er það þeirra. Það er ekki af ástæðulausu að fjölskyldur búa í úthverfum. Og hvað myndi það taka lögregluna langan tíma að stöðva slagsmál í Kópavogi miðað við fyrir utan Sólon? Það munar alveg örugglega 10 mínútum.

Þú ert að líta mjög þröngsýnum augum á þetta mál, og greinilega drykkju almennt. Það er dregin upp mynd af þessu ástandi í fjölmiðlum, og er skemmtanalíf Reykjavíkur þá dregið fram í sinni verstu mynd.

Stundum gleymist bara að nefna hina 5000 sem skemmtu sér konunglega í rólegheitunum á meðan 30 voru teknir fyrir óeirðir.

Spáðu aðeins í okkur sem eru aldrei með neitt vesen eða leiðindi áður en þú setur okkur fram sem dólga og djöfla á blogginu þínu.

Því það munu alltaf vera einhverjir sem eyðileggja fyrir hinum.

Kv. Daníel

Daníel Freyr Gústafsson, 18.9.2007 kl. 01:56

5 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Ja hérna þvílík skrif. Á það að vera drykkjumenning þjoðar vorrar að öskra, æpa, bíta eyra af fólki, lemja það jafnvel í götuna eins og ég sá dyraverði á Torvaldsen gera um daginn.

Var ekki talað um, þegar bjórinn kæmi myndum við breyta drykkjusiðum okkar, ekki man ég betur. Það átti að hafa skemmtistaði lengur opna til að breyta álaginu á miðbæinn.

Fólk sem ber virðingu fyrir sjálfum sér ráfar ekki dauðadrukkið um miðbæinn bítandi, pissandi á samborgara sína. Þetta er smán fyrir vel "upplýsta þjóð" finnst mér og þið Daníel Freyr, Haukur Viðar og Björn Jörundur, fáið mig aldrei til að finnast annað. Ég vona að þið náið fljótlega "þroska".

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 18.9.2007 kl. 10:38

6 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Mér finnst þessi umræða vera svolítið í skýi misskilningsins. - Nema að það sé ég sem skilji ekki málið?

Ég er alveg sammála Þóru um að þetta stríðsástand í miðborg Reykjavíkur er algerlega ólíðandi. Við heyrum um hrikalegt ofbeldi og sóðaskap.

- Hins vegar er það svo að lítið brot af heildinni setur þennan svip á "borgarbraginn" í Reykjavík.

Ég er þess fullviss að hinn almenni borgari er sammála Þóru í þessu máli og ég tel mjög gott að þetta mál komist í umræðuna. Ekki til að fordæma alla sem skemmta sér, heldur til að ræða hvað má gera til að miðborg Reykjavíkur verði öruggur og sæmilega hreinn staður til að vera á.

Ég veit að þessir hressu drengir sem hafa blandað sér í umræðuna á þessari síðu, finnst að verið sé að fordæma þá sem skemmta sér niðri í bæ. Það er örugglega ekki meinið.

Kannki ætti spurningin að snúast um af hverju íslendingar skemmta sér svona gassalega?   

Jón Halldór Guðmundsson, 18.9.2007 kl. 12:31

7 Smámynd: Björn Kr. Bragason

"Ég er alveg sammála Þóru um að þetta stríðsástand í miðborg Reykjavíkur er algerlega ólíðandi. Við heyrum um hrikalegt ofbeldi og sóðaskap."

Lykilorðið hérna er "heyrum" .. Landsbyggðarfólk hefur voðalega hátt um þennan meinta "miðbæjarvanda" af því að fjölmiðlar eru voðalega gjarnir á að blása hann upp úr öllu valdi. Ég hef búið í miðbænum síðan ég var nýlaus við bleiuna, og kannast lítið við eitthvert "stríðsástand" og "ómenningu" um helgar, allavega ekki lengur. Þetta var slæmt hér áður fyrr þegar skemmtistöðum var skylt að loka kl.3, en eftir að leyfilegur afgreiðslutími var lengdur hefur sjaldan verið eitthvað sem ég myndi kalla vandamál hér niðri í bæ, ekki nema á dögum eins og 17.júní og menningarnótt þegar dreifararnir flykkjast til byggða í tugþúsundatali.

Björn Kr. Bragason, 18.9.2007 kl. 14:07

8 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Já þetta eru skondnar aðfinnslur. Ég er fyrst og fremst að gera athugasemdir við öfgarnar. Til dæmis að ganga öskrandi um götur og míga utan í hús. Skrítið að einhverjum finnist það í lagi.

Læknar á slysadeildinni hafa líka líkt þessu ástandi við að þjóðin ætti í stríði, þeir þurfa meira að segja að hafa lögreglumann þar á vakt svo þeir geti gert að sárum hinna skemmtanaglöðu. 

Daníel Frey finnst réttilega það ekki vera hans einkamál hvernig hann hagar sér heima hjá sér því hann eigi nágranna. En hvað með nágrannana í bænum ?. Þar býr líka fólk í húsunum allt í kring sem getur ekki sofið fyrir drykkjulátum, öskrum og óhljóðum.

Einu sinni var ég að rölta í miðbæ Kaupmannahafnar að kvöldi til. Þar var fullt af fólki að skemmta sér með eðlilegum hætti. Heyrist þá ekki allt í einu hávaði og læti frá litlum hópi ungra manna sem gengu þarna rétt hjá. Þeir öskruðu og höfðu hátt, voru sennilega í svo miklu stuði, og viti menn, þetta voru Íslendingar. 

Þóra Guðmundsdóttir, 18.9.2007 kl. 22:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband